Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

ITTF-PTT level 1 þjálfaranámskeiðið og æfingabúðir 6. – 12. apríl

Frábært ITTF þjálfaranámskeið fór fram í aðstöðu TBR í sal félagsins á 2. hæð í Laugardal í Reykjavík og æfingasal Borðtennisdeildar Víkings dagana 6. til 12. apríl 2025.

Námskeiðið var haldið í samvinnu við ITTF og ETTU og kann BTÍ þeim Yelena Druzhkova og Mikael Andersson hjá ITTF og Galiu Dvorak hjá ETTU bestu þakkir fyrir að búðirnar hafi orðið að veruleika.

Leiðbeinandinn á námskeiðinu var Pacinthe Osman Soliman frá Egyptalandi en hún hefur víðtæka reynslu af bæði námskeiðahaldi og þjálfun og keppni á háu stigi, sem núverandi U15 unglingalandsliðsþjálfari Egyptalands og fyrrum Afríkumeistari kvenna og Ólympíufari árið 2000.

Námskeiðið fór fram eftir vinnu alla virku dagana og hófst kl. 16.30 og lauk kl. 21.30 öll kvöld (auk nokkurra klst. kennslu um helgarnar) með stuttu hléi þar sem þáttakendur gátu gripið í snarl. Á föstudeginum fóru tveir stjórnarmenn úr BTÍ með leiðbeinandann í bæjarferð um Reykjavík og nutu þess að borða morgunmat og ræða um heima og geima.

Sunnudaginn 6. apríl stýrði Pacinthe U12 unglingalandsliðsæfingu í Víkingi sem 16 krakkar tóku þátt í. Föstudaginn 11. apríl tóku þátttakendur svo þátt í vikulegri unglingalandsliðsæfingu í íþróttahúsi Hagaskóla og æfðu tækni sem þau höfðu lært, m.a. við kúluæfingar.

Ellefu þáttakendur luku námskeiðinu, frá HK, KR, Víkingi, BR, Selfossi, Akri og Laugalandi og þrír þjálfarar frá BH, KR og Sauðárkróki sátu einnig námskeiðið að hluta til að læra og rifja upp. Þá þjálfar einn þátttakendanna einnig fyrir Dímon og Stokkseyri vikulega og mun námskeiðið vafalítið nýtast þar.

Þátttakendur sem luku námskeiðinu munu í framhaldinu klára 30 klst. þjálfun sem er skilyrði fyrir að útskrifast sem ITTF level 1 þjálfari, að hluta til undir leiðsögn.

BTÍ þakkar Pacinthe sérstaklega fyrir vandað námskeið og æfingar og vonast til að sjá hana í alþjóðlegum borðtennisverkefnum í framtíðinni.

Myndir og frétt frá Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur.
Uppfærð mynd með öllum þátttakendum sett á forsíðuna 29.4.2025.

Aðrar fréttir