Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Fyrstu formlegu borðtennismótin á Klaustri og í Suðursveit

Helgina 12.-13. apríl 2025 fóru fram borðtenniskynningar og mót á Kirkjubæjarklaustri hjá Ungmennafélaginu ÁS og á Hrollaugsstöðum í Suðursveit hjá Ungmennafélaginu Vísi.

Hjá ÁS á laugardeginum tóku 10 þátt í opinni æfingu og 3 þátt í keppni í opnum flokki, allt keppendur frá heimamönnum.

Í fyrsta sæti varð Ásgeir Örn Sverrisson, í öðru sæti varð Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi félagsins og í þriðja sæti varð Rúnar Smári Ragnarsson Blandon.

Mæðginin Anna Sigurbjörnsdóttir og Tómas Hinrik Holloway úr KR áttu erindi á Klaustur þennan dag og tóku þátt í æfingunni og tóku æfingaleiki við heimamenn, við mikla ánægju. Samkvæmt Sigurði Eyjólfi hefðu fleiri keppt á mótinu ef páskafrí í grunnskólanum hefði ekki hafist óvenju snemma, þ.e. tveimur dögum fyrir mótið, en áhugi er fyrir frekara samstarfi.

Hjá Vísi á sunnudeginum var áberandi góð stemming bæði á æfingunni (þar sem sjö börn og sex fullorðnir æfðu) og á mótinu, en þar kepptu fimm börn í U18 flokki og níu fullorðnir í opnum flokki.

Eftirvænting skapaðist á æfingunni þegar út spurðist að bræðurnir Jóhannes Bjarki, Pétur Marteinn og Guðjón Páll úr BH og KR væru á leiðinni úr bænum gagngert til að keppa á mótinu. Bjarni Malmquist formaður Vísis hafði orð á því að aldrei áður hefðu svo sterkir leikmenn keppt á móti á vegum Umf. Vísis áður, þó félagið hafi verið stofnað árið 1912.

Svo varð að bræðurnir röðuðu sér í efstu þrjú sætin í framangreindri röð og í fjórða sæti varð Huldar Breiðfjörð, Umf. Vísi. Fyrir úrslitaleikinn milli Jóhannesar og Péturs var stillt upp stórum velli með áhorfendasvæði og viðureignin tekin upp. Bræðurnir, sem báðir hafa alþjóðadómararéttindi, nýttu tækifærið til að kynna ýmsar reglur borðtennisíþróttarinnar sem reynir sjaldnar á.

Í U18 flokki sást vel að þátttakendur höfðu fyrri keppnisreynslu og ágætis þekkingu á grunnreglunum en þar spilaði fjölmennt jólamót félagsins 2024 stórt hlutverk.

Í efstu sætunum urðu:
1. Oddi Breiðfjörð, Umf. Vísi
2. Jón Þormar Karlsson, Umf. Vísi
3. Anna Karen Malmquist, Umf. Vísi
og fékk Oddi bol merktan Borðtennissambandinu í verðlaun.

Borðtennissambandið þakkar ÁS og Vísi fyrir þetta góða samstarf og vonast til að sjá meira af þessum nýju félögum á komandi mánuðum.

Úrslit úr mótunum verða á næstunni lesin inn í Tournament Software forritið og fara þáttakendur inn á styrkleikalista BTÍ.

Frétt og myndir frá Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur.

Aðrar fréttir