Peter Nilsson landsliðsþjálfari heiðursfélagi BTÍ

Peter Nilsson landsliðsþjálfari, var útnefndur heiðurfélagi BTÍ og fékk afhent gullmerki sambandsins á landsliðsæfingu þann 4. maí sl. Peter lætur af störfum sem landsliðsþjálfari í sumar.
BTÍ þakkaði Peter að hafa ástríðu fyrir íslenskum borðtennis og hafa átt árangursríkt, jákvætt og þægilegt samstarf undanfarin fjögur ár, sem og áður fyrr en Peter hefur átt mikilvægan þátt í framförum leikmanna í landsliðshópnum. Sambandið hlakkar til komandi verkefna, eins og Smáþjóðaleikanna og ferðar unglingalandsliðsins til Gautaborgar, hans heimabæjar, í lok júní.
Peter komst fyrst til Íslands snemma á tíunda áratug síðustu aldar sem þjálfari og leikmaður KR, en lék síðar og stundaði þjálfun hjá Víkingi. Á þessum þremur áratugum hefur hann oft komið til Íslands til að þjálfa og hefur nú verið landsliðsþjálfari frá 2021.
Við afhendingu viðurkenningarinnar var boðið upp á hefðbundna íslenska bakaríssnúða, þar sem Peter kvað þá uppáhaldið sitt og voru þeir mjög vinsælir.


