Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Guðbjörg Vala komst upp úr riðlinum í einliðaleik meyja

Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir sigraði stúlku frá Búlgaríu í einliðaleik á EM unglinga í Ostrava og komst upp úr riðlinum í útsláttarkeppnina í einliðaleik. Að lokinni keppni í riðli 22 voru þrjár stúlkur jafnar í 2.-4. sæti, hver um sig með einn vinning, en Guðbjörg Vala hafði hagstæðasta hlutfall unninna og tapaðra lotna.
Ritstjóri man ekki til þess að áður hafi íslensk stúlka komist áfram í útsláttarkeppni í einliðaleik á EM unglinga.

Guðbjörg Vala mætir Leonor Gomes frá Portúgal kl. 9.40 þann 18. júlí í 64 manna úrslitum.

Auk þess vantaði Guðbjörgu Völu og Helenu Árnadóttur eitt stig til að komast áfram í tvíliðaleik meyja, en töpuðu leiknum að lokum 17-19 í oddalotu.

Kristján Ágúst Ármann var líka nálægt sigri í einliðaleik sveina þegar hann tapaði í oddalotu gegn lettneskum strák í lokaleiknum í riðlinum.

Úrslit úr leikjum í einstaklingskeppni 17. júlí:

Einliðaleikur meyja 15 ára og yngri

Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir sigraði keppanda frá Búlgaríu 3-1 og komst áfram í útsláttarkeppnina í einliðaleik meyja, eins og sagt er frá hér að ofan. Búlgarska stúlkan hafði sigrað stúlkuna frá Lúxemborg, sem Guðbjörg Vala tapaði fyrir í oddalotu þann 16. júlí.

Helena Árnadóttir tapaði 1-3 fyrir stúlku frá Póllandi.

Einliðaleikur sveina 15 ára og yngri

Heiðar Leó Sölvason tapaði 0-3 fyrir leikmanni frá Lúxemborg í lokaleiknum í riðlinum.

Kristján Ágúst Ármann tapaði 8-11 í oddalotu fyrir keppanda frá Lettlandi.

Lúkas André Ólason tapaði 0-3 fyrir frönskum leikmanni.

Einliðaleikur drengja 16-18 ára

Alexander Ivanov beið lægri hlut fyrir tékkneskum leikmanni og lauk leiknum 0-3.

Benedikt Aron Jóhannsson tapaði 1-3 fyrir dreng frá Serbíu í seinni leik sínum í riðlinum.

Darian Adam Róbertsson Kinghorn tapaði 1-3 fyrir sænskum leikmanni.

Einliðaleikur stúlkna 16-18 ára

Sól Kristínardóttir Mixa tapaði 0-3 fyrir leikmanni frá Moldóvu í lokaleik riðilsins.

Tvíliðaleikur meyja 15 ára og yngri

Guðbjörg Vala og Helena töpuðu 17-19 í oddalotu fyrir pari frá Búlgaríu í 64 para úrslitum. Þær voru undir 7-10 í oddalotunni en tókst að jafna og komast yfir og áttu nokkra leikbolta áður en þær töpuðu oddalotunni.

Tvíliðaleikur sveina 15 ára og yngri
Kristján og Lúkas lutu í lægra haldi fyrir blönduðu pari frá Írlandi og Úkraínu í 64 para úrslitum og lauk leiknum 0-3.
Heiðar Leó keppti með Sebastian Asu frá Eistlandi og töpuðu þeir 0-3 gegn þýsku pari.

Tvíliðaleikur stúlkna 16-18 ára
Sól keppti með Valeriju Kosenko frá Lettlandi og töpuðu þær 0-3 gegn blönduðu pari frá Póllandi og Þýskalandi.

Tvíliðaleikur drengja 16-18 ára
Alexander og Benedikt mættu blönduðu pari frá Póllandi og Spáni í 64 para úrslitum og lutu í lægra haldi 0-3.
Darian keppti með keppanda frá Kýpur og töpuðu þeir 0-3 gegn pari frá Portúgal.

Allir íslensku keppendurnir, að undanskilinni Guðbjörg Völu, hafa lokið keppni á mótinu.

Hér má fylgjast með keppni og sjá úrslit úr einstökum leikjum: https://www.ettu.org/european-youth-championships/

Forsíðumynd af Guðbjörgu og Helenu tekin af myndavef ETTU.

Aðrar fréttir