Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Sumaræfingar og borðtennisnámskeið hjá Vísi í Suðursveit

Dagana 1., 8., 11. og 12. júlí síðastliðinn hélt Ungmennafélagið Vísir æfingabúðir í borðtennis fyrir fatlaða á öllum aldri að Hrollaugsstöðum í Suðursveit. Hákon Atli Bjarkason og Jóna Kristín Erlendsdóttir margfaldir Íslandsmeistarar fatlaðra stóðu fyrir þjálfuninni auk Bjarna Malmquist Jónssonar og Sigrúnar Elfu Bjarnadóttur, forstöðumanna Vísis. Þátttakendur voru vel á annan tug.

1. og 8. júlí voru haldnar 90 mínútna æfingar og 11. og 12. júlí var æft kl. 10-14:30 með hádegishléi þar sem grillaðar voru pylsur. Mikil ánægja var með viðburðinn og er stefnt að því að endurtaka hann næsta ár þannig að öllum hreyfihömluðum á landinu standi til boða æfingabúðir í borðtennis eina helgi yfir sumarið í Hrollaugsstöðum.

Hvatasjóður ÍSÍ og UMFÍ styrkti verkefnið um 500 þúsund krónur sem hjálpaði meðal annars við kaup félagsins á tveimur nýjum borðum.

Nú í júlí og út sumarið mun félagið svo halda vikuleg borðtenniskvöld á miðvikudögum og er stefnt að því að gera það einnig í vetur. Fyrstu tvö kvöldin hafa verið sótt vel en þá mætti aðallega starfsfólk úr ferðaþjónustu nágrennisins, af ýmsum þjóðernum, en einnig heimamenn. Þann 16. júlí mættu sem dæmi 24 þátttakendur.

Á forsíðunni má sjá mynd frá sumaræfingum. Efst í fréttinni er mynd frá æfingabúðunum og hér fyrir neðan má sjá Hákon Atla Bjarkason og Önnu Karen Malmquist Íslandsmeistara í tvenndarleik fatlaðra.

Frétt og myndir frá Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur og Bjarna Malmquist.

Uppfært 28.7.

Aðrar fréttir