Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Borðtennismaður mánaðarins: Sigurjón Ólafsson

Borðtennissamband Íslands vill fagna þeim frábæru iðkendum sem leggja stund á borðtennis og móta og búa til okkar frábæra samfélag. Í þeirri viðleitni kynnum við til leiks seríuna „Borðtennismaður mánaðarins“, sem verður birt á heimasíðu sambandsins og sem stutt myndbönd á nýrri TikTok-síðu þess líka (notendanafn: bordtennissambandislands).

Fyrsti borðtennismaður mánaðarins er Sigurjón Ólafsson, HK-ingur og ritari BTÍ allt frá árinu 2022.

Sigurjón byrjaði að æfa borðtennis árið 2018, árið sem hann varð fimmtugur, og prófaði fyrst hjá BH í Hafnarfirði.

Við spurðum Sigurjón hvaða gúmmí hann velur sér: „Ég er ekkert rosalegur „gúmmí-nörd“.“ segir hann og bætir við að hann treysti mest á ráðleggingar þjálfara og noti Butterfly Dignics09 í forhönd, og sé að prófa sig áfram með takkagúmmí og nýjar lausnir í bakhönd.

Sigurjón er ekki hjátrúafullur keppandi, þótt hann telji það vel geta verið góðra gjalda vert, hann notar t.d. ekki sama sokkaparið í hverri keppni: „…og ég þvæ alveg fötin.“ segir hann, sem þefnæmir mótherjar hans fagna eflaust.

Hvað uppáhalds sigur sinn varðar segir Sigurjón: „Sigrarnir eru nú ekkert rosalega margir, en ég held að ég verði að nefna sigur sem ég vann á móti í Madríd þegar ég bjó þar. Þá vann ég innanfélagsmót og fékk glæstan, forláta bikar sem ég er mjög stoltur af.“

Ferðalög, innanlands og utan, eru meðal fríðinda þess að leggja stund á íþróttina. Sigurjón hefur ekki farið í margar keppnisferðir innanlands, en spurður um eftirminnilegustu borðtennisferðina nefnir hann námskeið í Cambridge undir handleiðslu Tom Lodziak. „Hann er svona ákveðin hetja í mínum huga.“

Þegar kemur að erlendum fyrirmyndum eru Ruwen Filus, „þýski varnarspilarinn“, og gríski Gionis Panagiotis fremstir í huga Sigurjóns.

Það þarf ekki að spyrja Sigurjón tvisvar hver hafi haft mest áhrif á hann sem leikmann: „Bjarni Þorgeir Bjarnason, þjálfari minn í HK, hefur sýnt ótrúlega þolinmæði og ósérhlífni. Hann tók við mér á gamals aldri og hefur ávallt reynt að bæta minn leik.“

Að lokum spurðum við Sigurjón hvað gerir borðtennis að bestu íþróttinni
„Borðtennis er eitthvað sturlað flott íþrótt sem allt of fáir á Íslandi hafa uppgötvað. Hún reynir á taktík og hugsun, er góð fyrir heila, líkama og samhæfingu hugar og handar. Þetta er íþrótt sem maður getur stundað hvort sem maður stendur uppi eða ekki.“

Hvaða borðtennismaður þykir þér eiga að fá viðurkenningu? Fylltu út formið hér að neðan!

 

Aðrar fréttir