Ársæll Aðalsteinsson ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari
BTÍ hefur komist að samkomulagi við Ársæl Aðalsteinsson, fyrrum yfirþjálfara Borðtennisdeildar Víkings um að sinna starfi aðstoðarlandsliðsþjálfara veturinn 2025-2026.
Góðar umsóknir bárust vegna stöðu unglingalandsliðsþjálfara, sem auglýst var í sumar. Í samráði við nýjan landsliðsþjálfara var ákveðið að ganga til samninga við Ársæl og að viðræðum loknum hittust þeir til að ráða ráðum sínum á meðan fyrstu æfingabúðum Sindre hérlendis stóð.
Líkt og greindi frá í fréttinni um ráðningu Sindre var BTÍ að leita að þjálfara sem gæti sinnt reglulegum æfingum A-landsliðs, unglingalandsliðs og U13 landsliðs í fjarveru Sindre. Það að halda þær æfingar með reglubundnum hætti yfir veturinn hefur gefið góða raun undanfarin tvö ár.
Fyrirkomulagið verður með þeim hætti að unglingalandsliðsæfingar verða á föstudagseftirmiðdögum (þær helgar sem Sindre er ekki með æfingabúðir) í TBR-húsinu, A-landsliðsæfingar verða tvisvar í mánuði (einhvern annan dag en föstudag) og U13 æfingar verða mánaðarlega, sennilegast á sunnudagseftirmiðdegi. Er þetta sami fjöldi æfinga og vorið 2025. Þátttakendum, foreldrum unglingalandsliðsleikmanna og þjálfurum U13 leikmanna verður tilkynnt um nánari tímasetningar innan skamms – en fyrsta unglingalandsliðsæfingin verður föstudaginn 12. september. Þá munu Sindre og Ársæll velja leikmenn í unglingalandsliðsferðir í sameiningu.
Stjórn og landsliðsnefnd BTÍ hlakka til að starfa með Ársæli og lýsa yfir ánægju sinni með að fá þennan öfluga þjálfara aftur inn í hreyfinguna eftir um 1,5 árs hlé.
Ársæl þarf vart að kynna fyrir áhugafólki um borðtennis, en hann var yfirþjálfari Borðtennisdeildar Víkings í tæpan áratug og þjálfaði þar margt af sterkasta landsliðsfólki Íslands og fjöldann allan af Íslandsmeisturum. Þá má jafnframt nefna að á tíma hans þar heyrði algjörra undantekninga til að hann stýrði ekki karla- eða kvennaliði til sigurs sem Íslandsmeistarar liða á vorin (og oft unnust báðir flokkarnir).


