Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Borðtennisæfingar hafnar á Patreksfirði

Þau gleðitíðindi bárust Borðtennissambandi Íslands í liðinni viku að enn eitt íþróttafélagið hafi hafið vikulegar borðtennisæfingar: Íþróttafélagið Hörður á Patreksfirði.

Pawel Dobosz, sem æfði borðtennis í um áratug í Póllandi á sínum yngri árum hafði frumkvæði að starfinu og hefur boðið upp á æfingar alla miðvikudaga frá og með 3. september sl. auk þess að á laugardögum er opinn fjölskyldutími í íþróttahúsinu á Patreksfirði. Æft er á þremur borðum, þar af tveimur nýjum (ath. myndir með frétt eru frá því áður en nýju borðin fengust).

Samkvæmt Birnu Friðbjörtu Stephensen Hannesdóttur formanni félagsins hafa um 8-10 krakkar verið að mæta og er mikill hugur í iðkendum sem eru það spenntir „að þau biðja um að vera í borðtennis í skólaíþróttum og á eftir æfingum ef íþróttahúsið er laust.“ Birna telur þetta vera góða byrjun á borðtennisiðkun á Patreksfirði og segist vona að starfið sé komið til að vera.

Stefnt er að því af hálfu útbreiðslunefndar BTÍ að mæta á staðinn á yfirstandandi vetri til að styðja við starfið eins og venjan er með ný félög. Í leiðinni mætti vonandi heimsækja UMFB, Bolungarvík þar sem æfingar eru hafnar að loknu sumarleyfi með þjálfaranum Gabríel Heiðberg Kristjánssyni, sem tók við af Amid Derayat sem er fluttur aftur í bæinn.

 

Aðrar fréttir