Ingi Darvis og Matthias Þór í 43. og 50. sæti á Finlandia Open
Tveir íslenskir leikmenn léku á Finlandia Open, sem fram fór í Finnlandi 4.-7. desember.
Þeir Ingi Darvis Rodriguez og Matthias Þór Sandholt kepptu báðir í einliðaleik karla og Matthias spilaði líka í einliðaleik undir 21 árs. Í karlaflokki var leikið um hvert sæti en það var ekki gert í U21 árs flokki.
Ingi Darvis vann finnska leikmenn í tveimur fyrstu umferðunum en tapaði í þriðju umferð (32ja manna úrslitum) fyrir Finnanum Alex Naumi. Tapmegin í töflunni tapaði Ingi fyrir leikmanni frá Úkraínu og lék því um sæti 33-48. Þvínæst tapaði hann fyrir finnskum leikmanni, fyrir leikmanni frá Kýpur og lagði að lokum Svía í leik um 43. sæti.
Í einliðaleik karla tapaði Matthias sínum fyrsta leik í útsláttarkeppninni í 128 manna úrslitum fyrir eistneskum leikmanni og fór því yfir í taphliðina á töflunni. Hann lagði fyrst leikmann frá Kýpur en tapaði svo fyrir öðrum Kýpverja. Því næst lagði hann leikmenn frá Sviss, Eistlandi og Litháen og tapaði loksins fyrir leikmanni frá Írlandi í leik um 49. sæti. Matthías lauk því keppni í 50. sæti.
Matthias sigraði i sínum riðli í einliðaleik U21 árs, þar sem hann lagði leikmann frá Danmörku og Grænlandi. Hann féll úr leik í 32 manna úrslitum fyrir Oliver Berntsen frá Danmörku.


