Guðbjörg Vala og Ingi Darvis borðtennisfólk ársins
Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir, KR, og Ingi Darvis Rodriguez, Víkingi, voru kjörin borðtennisfólk ársins 2025 í kosningu sem lauk þann 26. desember sl. Þau fengu hvort um sig yfir helming greiddra atkvæða. Þetta er í fyrsta skipti sem Guðbjörg Vala er kjörin borðtenniskona ársins en Ingi Darvis var kjörinn árið 2020, 2021 og 2024.
Viðurkenning fyrir borðtennisfólk ársins verður afhent þann 3. janúar 2026.
Ingi Darvis Rodriguez er 23 ára leikmaður Víkings. Ingi hefur verið mest áberandi íslenski borðtennismaðurinn undanfarin misseri en hann varð Íslandsmeistari karla í þriðja sinn á árinu og vann tvo af fjórum Íslandsmeistaratitlum í meistaraflokki. Ingi býr í Halmstad í Svíþjóð til að leggja stund á borðtennis og spilar í næstefstu deild Svíþjóðar fyrir lið sitt Vetlanda BTK. Ingi var leikjahæsti leikmaður karlalandsliðsins á árinu og var m.a. í 5.-8. sæti í einliðaleik á Smáþjóðaleikunum, mikilvægur leikmaður Íslands í undankeppni EM liða og lenti í 43. sæti á sterkasta opna mótinu á Norðurlöndum, Finlandia Open. Ingi er fyrirmynd ungra íslenskra borðtennismanna og er á mikilli uppleið.
Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir er 15 ára leikmaður KR. Guðbjörg Vala varð í öðru sæti í einliðaleik á Íslandsmótinu í vor aðeins 14 ára að aldri og sigraði á lokamóti BTÍ skömmu síðar. Þá keppti hún víða erlendis á árinu, svo sem á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar og hefur stimplað sig inn sem ein af efnilegustu borðtenniskonum Norðurlandanna með sigrum í sínum aldursflokki á fjölmennum mótum í Ängby, Hróarskeldu, með 5. sæti á Safir International og með tímamótaárangri þegar hún komst í 64-manna úrslit í flokki 15 ára og yngri á sterku EM unglinga í sumar. Guðbjörg Vala er frábær fulltrúi íslensks kvennaborðtenniss og á framtíðina fyrir sér.


