Magnús Kristinn og Kolfinna Bergþóra Íslandsmeistarar í meistaraflokki
Magnús Kristinn Magnússon úr Víkingi og Kolfinna Bergþóra Bjarnadóttir úr HK sigruðu í einliðaleik í meistaraflokki á Íslandsmótinu í borðtennis, sem fram fór í KR-heimilinu við Frostaskjól 4.-5. mars. Magnús endurheimti þar með titilinn, sem hann vann 2014 og 2015 en Kolfinna vann sinn fyrsta titil í einliðaleik.
Aðrir Íslandsmeistarar voru Kári Ármannsson og Kári Mímisson, KR í tvíliðaleik karla og Ásta Urbancic, KR og Bergrún Linda Björgvinsdóttir, Dímon, í tvíliðaleik kvenna. Aldís Rún Lárusdóttir og Davíð Jónsson, KR sigruðu í tvenndarleik. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR sigraði í 1. flokki kvenna og Tómas Ingi Shelton, BH í 1. flokki karla. Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR, sigraði í 2. flokki kvenna og Karl A. Claesson, KR í 2. flokki karla.
Íslandmeistaratitilar í meistaraflokki dreifðust á leikmenn, svo enginn vann fleiri en einn titil.
Leikið var í 9 flokkum á mótinu og unnu KR-ingar 5,5 titla, BH, HK og Víkingur 1 titil hvert og Dímon 0,5 titil. Þá fengu KR-ingar flest verðlaun allra félaga.
Verðlaunahafar í einstökum flokkum
Meistaraflokkur kvenna
1. Kolfinna Bergþóra Bjarnadóttir, HK
2. Aldís Rún Lárusdóttir, KR
3.-4. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR
3.-4. Bergrún Linda Björgvinsdóttir, Dímon
Ljóst var að nýr meistari yrði krýndur í kvennaflokki þar sem Guðrún G Björnsdóttir, Íslandsmeistari síðustu þriggja ára, lék ekki í einliðaleik og enginn keppenda hafði unnið titil í flokknum. Kolfinna sigraði Aldísi 4-1 (11-8, 9-11, 13-11, 12-10, 11-9) í baráttuleik og tryggði sér sinn fyrsta titil í einliðaleik í meistaraflokki. Þessar tvær voru áberandi sterkustu keppendurnir í meistaraflokki kvenna.
Meistaraflokkur karla
1. Magnús K. Magnússon, Víkingur
2. Kári Mímisson. KR
3.-4. Daði Freyr Guðmundsson, Víkingur
3.-4. Davíð Jónsson, KR
Kári Mímisson, KR, sló Íslandsmeistarann frá í fyrra, Daða Frey Guðmundsson úr Víkingi út í undanúrslitum 4-3 en Daði vann þrjár fyrstu loturnar í leiknum. Magnúsi K. Magnússon, Víkingi vann Davíð Jónsson, KR 4-2 í hinum undanúrslitunum. Magnús sigraði svo Kára örugglega 4-0 í úrslitunum (11-6, 11-7, 11-5, 11-6) og endurheimti þar með titilinn sem hann vann 2014 og 2015.
Verðlaunahafar í tvíliðaleik kvenna. Sveinu Rósu Sigurðardóttur vantar á myndina.
Tvíliðaleikur kvenna
1. Bergrún Linda Björgvinsdóttir/Ásta M. Urbancic, Dímon/KR
2. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir/Aldís Rún Lárusdóttir, KR
3.-4. Þórunn Ásta Árnadóttir/Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingur
3.-4. Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir/Sveina Rósa Sigurðardóttir, KR
Ásta og Bergrún sigruðu Auði og Aldísi 3-2 í spennandi úrslitaleik (11-5, 10-12, 12-10, 6-11, 11-8). Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Bergrúnar í meistaraflokki en fimmti titill Ástu í tvíliðaleik. Hún sigraði fyrst í tvíliðaleik fyrir 40 árum síðan, árið 1977, og síðast fyrir 25 árum.
Verðlaunahafar í tvíliðaleik karla.
Tvíliðaleikur karla
1. Kári Ármannsson/Kári Mímisson, KR
2. Daði Freyr Guðmundsson/Magnús K. Magnússon, Víkingur
3.-4. Birgir Ívarsson/Magnús Gauti Úlfarsson, BH
3.-4. Magnús Jóhann Hjartarson/Sindri Þór Sigurðsson, Víkingur
Nafnarnir Kári og Kári unnu Daða og Magnús, Íslandsmeistarana frá 2015 í æsispennandi úrslitaleik 3-2 (11-8, 11-13, 6-11, 11-9, 11-8). Þetta var fyrsti titill beggja Káranna í einstaklingskeppni í meistaraflokki.
Verðlaunahafar í tvenndarleik. Guðrúnu G Björnsdóttur vantar á myndina.
Tvenndarleikur
1. Davíð Jónsson/Aldís Rún Lárusdóttir, KR
2. Daði Freyr Guðmundsson/Kolfinna Bergþóra Bjarnadóttir, Vikingur/HK
3.-4. Skúli Gunnarsson/Guðrún G Björnsdóttir, KR
3.-4. Kári Mímisson/Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR
Davíð og Aldís endurheimtu titilinn sem þau unnu árið 2015. Þau sigruðu Daða og Kolfinnu 3-1 (8-11, 11-7, 11-9, 11-9) í úrslitaleiknum.
Verðlaunahafar í 1. flokki kvenna.
1. flokkur kvenna
1. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR
2. Bergrún Linda Björgvinsdóttir, Dímon
3.-4. Þórunn Ásta Árnadóttir, Víkingur
3.-4. Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingur
Auður Tinna sýndi góðan leik í úrslitaleiknum og sigraði Bergrúnu, sem var stigahæsti leikmaðurinn í flokknum í þremur jöfnum lotum 16-14, 11-9, 11-9.
Verðlaunahafar í 1. flokki karla.
1. flokkur karla
1. Tómas Ingi Shelton, BH
2. Ísak Indriði Unnarsson, Víkingur
3.-4. Jóhannes Kári Yngvason, KR
3.-4. Ellert Kristján Georgsson, KR
Tómas lagði Ísak 3-1 í úrslitaleiknum (9-11, 11-5, 11-5, 11-8) og vann sinn fyrsta titil í 1. flokki. Jóhannes Kári Yngvason, sem varð í 3.-4. sæti er enn í 2. flokki og lagði tvo 1. flokks leikmenn á leið sinni í undanúrslit.
Verðlaunahafar í 2. flokki kvenna.
2. flokkur kvenna
1. Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR
2. Karitas Ármannsdóttir, KR
3.-4. Sól Kristínardóttir Mixa, BH
3.-4. Áslaug Hrönn Reynisdóttir, ÍFR
Kristín var þriðja stigahæst í flokknum, og þurfti að slá út tvo stigahæstu leikmennina, sem báðar hafa leikið í 1. flokki, til að vinna titilinn. Hún vann Karitas 3-1 (11-8, 11-13, 11-7, 15-13) í úrslitaleiknum.
Verðlaunahafar í 2. flokki karla. Guðmund Ragnar Guðmundsson vantar á myndina.
2. flokkur karla
1. Karl Andersson Claesson, KR
2. Ingi Brjánsson, KR
3.-4. Guðmundur Ragnar Guðmundsson, Víkingur
3.-4. Kamil Mocek, Víkingur
Karl sigraði Guðmund Ragnar, Íslandsmeistarann frá fyrra ári 3-2 í undanúrslitum í hörkuleik. Hann lagði svo Inga, félaga sinn úr KR 3-1 (13-11, 14-12, 6-11, 11-7) í úrslitaleiknum.
Öll úrslit eru aðgengileg á vef Tournament Software, http://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=4B59C544-0CE6-401D-8895-00A03039CBFC
Myndir frá Finni Hrafni Jónssyni.
ÁMU (uppfært 6.3.)