Úrslit úr einliðaleik á Norður-Evrópumóti unglinga
Keppni hófst í einliðaleik á Norður-Evrópumóti unglinga í dag. Fyrst var leikið í riðlum og síðan leikið upp úr riðlunum í útsláttarkeppni.
Af leikmönnum Íslands tókst aðeins Magnúsi Gauta Úlfarssyni að vinna leiki í riðlinum, en hann vann tvo leiki og tapaði þeim þriðja í oddalotu skv. Facebook síðu BTÍ og varð því í 2. sæti í riðlinum. Magnús tapaði aftur naumlega í 5. lotu fyrir einum besta leikmanni mótsins frá Noregi, Finn Vetvik, í útsláttarkeppninni að lokinni riðlakeppninni. Magnús endaði í 9.-16. sæti af 31 keppanda í einliðaleik junior drengja. Magnús er búinn að vera spila virkilega vel og hefur sigrað í 7 af þeim 12 leikjum sem hann hefur spilað. Það er einn allra besti árangur íslensks leikmanns á þessu móti.
Flestir hinir íslensku leikmennirnir töpuðu sínum leikjum eftir riðlakeppnina, nema Kári Ármannsson og Ingi Darvis Rodriquez. Kári, sem hefur ekki verið alveg heill, vann einn leik og tapaði í næsta leik mjög naumlega í oddalotu fyrir Joonatan Khosravi frá Finnlandi og féll þá úr keppni.
Ingi Darvis Rodriquez, sem hefur náð næstflestum sigrum af íslensku keppendunum, er eini leikmaðurinn sem leikur á morgun og á því möguleika því að bæta góðan árangur sinn enn frekar. Ingi sigraði Brian Egenberg frá Noregi 3-0 og mætir Madis Moos frá Eistlandi á morgun. Ingi á möguleika á því að ná 9. sætinu af 16 með því að sigra í tveimur leikjum á morgun. Ingi byrjar að spila klukkan 9 að eistneskum tíma en það er klukkan 6 að morgni á Íslandi. Mjög líklegt að hægt verði að fylgjast með leiknum á netinu.
Úrslit í einliðaleik hjá öðrum leikmönnum Íslands að lokinni riðlakeppni:
Junior drengir: Kári Ármannsson og Jóhannes Kári Yngvason lentu saman í útsláttarkeppninni og sigraði Kári 3-0. Hann tapaði svo 2-3 fyrir Joonatan Khosravi eins og áður hefur komið fram. Khosravi hafði áður slegið Kamil Mocek út 3-0. Ellert Kristján Georgsson tapaði 1-3 fyrir Veeti Vallasti frá Finnlandi. Gestur Gunnarsson tapaði 0-3 fyrir Markuss Ozols frá Lettlandi, Elvar Kjartansson tapaði 0-3 fyrir Jan Roger Andersson frá Noregi og Karl A. Claesson tapaði 0-3 fyrir Even Holri frá Noregi.
Junior stúlkur: Þórunn Ásta Árnadóttir og Ársól Arnardóttir töpuðu báðar 0-3 fyrir Hille Millert frá Eistlandi. Stella Karen Kristjánsdóttir tapaði 0-3 fyrir Diönu Afasjanevu frá Lettlandi.
Kadett sveinar: Ísak Indriði Unnarsson tapaði 0-3 fyrir Madis Moos frá Eistlandi og Ingi Brjánsson tapaði 0-3 fyrir Ken Talpas-Taltsepp, einnig frá Eistlandi.
Kadett meyjar: Lára Ívarsdóttir tapaði 0-3 fyrir Darinu Piskanovu frá Lettlandi og Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir tapaði 0-3 fyrir Kaarinu Saaliaho frá Finnlandi.
ÁMU