BH, KR og Víkingur unnu titlana á seinni degi flokkakeppni unglinga 2018
BH, KR og Víkingur sigruðu í þeim fjórum flokkum, sem keppt var í á seinni degi flokkakeppni unglinga, sem fram fór í Íþróttahúsi Hagaskóla þann 11. febrúar. Leikið var í flokki pilta fæddum 2005 og síðar og öllum þremur stúlknaflokkunum: telpum fæddum 2005 og síðar, meyjum fæddum 2003-2004 og stúlkum fæddum 2000-2002.
Verðlaunahafar:
Telpur fæddar 2005 og síðar
- BH-1 (Alexía Kristínardóttir Mixa, Sól Kristínardóttir Mixa)
- KR/Víkingur (Agnes Brynjarsdóttir, Berglind Anna Magnúsdóttir)
- KR-A (Freyja Dís Benediktsdóttir, Natalía Kjærulf Óskarsdóttir)
- KR-B (Friðrika Sigurðardóttir, Nanna Rut Ólafsdóttir)
Systurnar úr BH sigruðu sameiginlegt lið KR og Víkings 3-1 í hörkuleik og vörðu titilinn sem þær unnu í fyrra. Agnes vann Alexíu 3-0 og Sól lagði Berglindi 3-1. BH-stúlkurnar léku vel í tvíliðaleiknum og sigruðu 3-1. Sól tryggði svo titilinn með 3-2 sigri á Agnesi, þar sem þremur lotum lauk með tveggja stiga mun. Hart barist hjá stelpunum. Sjá mynd á forsíðu.
Piltar fæddir 2005 og síðar
- BH-1 (Alexander Ivanov, Kristófer Júlían Björnsson og Theodór Svarfdal Sveinbjörnsson)
- KR-A (Baldur Thor Aðalbjörnsson, Gunnar Þórisson)
3.-4. BH-2 (Birkir Smári Traustason, Davíð Snær Sveinsson, Kristófer Logi Ellertsson)
3.-4. KR-C (Benedikt Espólín Birgisson, Daníel Örn Arnarson)
Úrslitaleiknum lauk með 3-2 sigri BH-1 ofir KR-A. Baldur vann Alexander 3-1 og Kristófer vann Gunnar 3-0. BH-strákarnir unnu svo tvíliðaleikinn 3-0. Gunnar lagði Alexander 3-1 en Kristófer tryggði BH titilinn með 3-0 sigri yfir Baldri í oddaleiknum. Íslandsmeistararnir eru fæddir 2006 og 2008 og eru því allir gjaldgengir í þessum flokki á næsta ári.
Meyjar fæddar 2003-2004
- BH/KR (Harriet Cardew, Lóa Floriansdóttir Zink)
- KR-A (Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, Þóra Þórisdóttir, Þuríður Þöll Bjarnadóttir)
Úrslitaleikurinn var æsispennandi og réðust úrslit í oddalotu í 5. og síðasta leiknum, þegar Harriet sigraði Þóru. Áður hafði Harriet unnið Kristínu 3-1 og Þóra unnið Lóu 3-0. Kristín og Þuríður unnu tvíliðaleikinn 3-0 en Lóa hélt BH/KR inni í leiknum með því að vinna Kristínu 11-4 í oddalotu.
Stúlkur fæddar 2000-200
- Víkingur (Stella Karen Kristjánsdóttir, Þórunn Ásta Árnadóttir)
- KR (Ársól Clara Arnardóttir, Lára Ívarsdóttir)
Víkingsstúlkurnar unnu 3-0 og vörðu titilinn frá því í fyrra. Leikurinn var þó jafnari en úrslitin gefa til kynna, því alls voru leiknar 12 lotur og unnust 7 þeirra með tveggja stiga mun. Stella vann Láru 15-13 í oddalotu eftir að Lára hafði átt leikstig í 4. lotu. Þórunn vann Ársól 3-1 og Víkingur vann tvíliðaleikinn 3-0.
Úrslit úr öllum leikjum eru birt á vef Tournament Software, http://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=49C83D4B-C831-4DD4-B6E8-2C5C0F2CB0A0
Myndir frá Brynjari Ólafssyni, Ingimar Ingimarssyni og fleirum.
ÁMU