Lokamót aldursflokka- og Grand Prix mótaraðanna 22. apríl
Lokamót aldursflokka- og Grand Prix mótaraðanna verða haldin sunnudaginn 22. apríl í TBR-húsinu, eins og fram hefur komið.
Keppni á lokamóti aldursflokkamótaraðarinnar hefst kl. 10 en keppni á lokamóti Grand Prix mótaraðarinnar hefst kl. 13. Nánari upplýsingar um dagskrá mótanna má sjá í fréttum frá 16. apríl sl. og í dagatals/mótaskrár dálkinum hægra megin á síðunni.
Boð hafa verið send út til keppenda, sem höfðu áunnið sér rétt til keppni á lokamótunum. Mótanefnd dró um röð keppenda í þeim tilvikum þar sem tveir eða fleiri keppendur höfðu hlotið jafnmörg stig. Í viðhengi má sjá röð keppenda inn á lokamótin.
Keppandi nr. 1 keppir við nr. 8, nr. 2 við nr. 7, nr. 3 við nr. 6 og nr. 4 við nr. 5. Ef einhver keppandi mætir ekki til leiks, færast keppendur fyrir neðan upp um eitt sæti, og það er því ekki endanlega ljóst fyrr en á mótsstað hvaða leikmenn munu mætast.
Stjórn BTÍ gerði breytingu á reglugerð um aldursflokkamótaröðina þann 31. ágúst 2017 þannig að keppt verður um hvert sæti á lokamótinu. Þannig fær hver leikmaður 3 leiki ef full mæting verður í flokknum. Sjá nánar í reglugerð.
Röð leikmanna á lokamót aldursflokkamótaraðarinnar: Aldursflokkamótaröðin-2017-18-lokastaða röð
Röð leikmanna á lokamót Grand Prix mótaraðarinnar: Grand-prix-mótaröðin-2017-18-lokastaða röð
Frá því að boð voru send út hafa nokkrir leikmenn afþakkað boð um þátttöku og hafa varamenn verið boðaðir í þeirra stað.
Lokamót aldursflokkamótaraðarinnar: Kristrún Halla Snorradóttir datt út í í telpuflokki (12-13 ára) og var Marín Mist Ingvadóttir boðuð í staðinn.
Lokamót Grand Prix: Kári Mímisson og Davíð Jónsson komast ekki og bætast því í hópinn Pétur Marteinn Urbancic Tómasson og Gestur Gunnarsson.
Anna Sigurbjörnsdóttir datt út og Þuríður Þöll Bjarnadóttir kom í staðinn.
Forsíðumynd frá Brynjari Ólafssyni af telpunum fjórum, sem hafa barist um verðlaunin á flestum telpnamótum vetrarins.
ÁMU (uppfært 21.4.)