Ársskýrsla BTÍ og ávarp
Kæru félagar
Þakka traustið á ársþinginu sem lauk fyrr í dag. Samhent stjórn mun halda góðu starfi áfram.
Til þess að íþrótt okkar vaxi og dafni þarf regluverk hreyfingarinnar að hvíla á traustum grunni. Frá því að ný stjórn tók við í október 2016 hefur verið lögð talsverð vinna í að yfirfara allar reglugerðir BTÍ. Samantekt um þá vinnu er að finna aftast í ársskýrslunni og er ársskýrsluna að finna hér að neðan. Hefur það reynst svo, að á yfirstandandi tímabili hafa ekki komið upp stór ágreiningsmál sem segir mér að ef reglur okkar eru skýrar þá geri það okkur fært að einbeita okkur að því sem máli skiptir sem er að hlúa að og efla gott starf okkar. Eins og áður eru allar ábendingar vel þegnar en við höfum gert breytingarnar í samráði við sambandsaðila hreyfingarinnar, eins og vera ber.
Til þess að geta leikmanna okkar verði meiri og þeir samkeppnishæfir á alþjóðavettvangi þarf umhverfi þeirra og aðbúnaður að vera góður. Félögin hafa nú flest ágæta aðstöðu og er því að mínu mati fyrsti og stærsti liðurinn í uppbyggingarstarfi okkar að hafa innan okkar raða metnaðarfulla og drífandi þjálfara sem hafa reynslu, menntun og þekkingu sem þeir geta miðlað til leikmanna.
Vegna þessa hefur á síðasta tímabili verið lögð mikil áhersla á menntun þjálfara hreyfingarinnar og að styðja þá til góðra verka, með styrkjum og námskeiðum. Námskeið hafa verið sótt í Eistlandi, Danmörku og Möltu og eigum við nú í fyrsta sinn tvo innlenda þjálfara með 2. stigs ITTF þjálfaramenntun. Einn þjálfari hreyfingarinnar er jafnframt langt kominn með háskólapróf í borðtennisfræðum. Í september 2017 var svo haldið þjálfaranámskeið á Íslandi þar sem fyrirlesari var einn fremsti þjálfari Evrópu, Neven Cegnar. Munum við halda áfram á þessari braut, m.a. með 1. stigs þjálfaranámskeiði ITTF sem haldið verður á Íslandi í júní 2018.
Annar liður í þessari uppbyggingu er einnig að hafa starf okkar og umhverfi aðlaðandi fyrir leikmenn og aðstandendur þeirra. Liður í því hefur frá því október 2016 verið að halda reglulega æfingabúðir fyrir leikmenn á Íslandi og nýta til þess krafta hreyfingarinnar og aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu og á Hvolsvelli þar sem iðkendur úr mismunandi félögum hittast, kynnast og æfa saman. Annar stór lykill er að við vöndum mótahald okkar og gerum keppni aðlaðandi bæði fyrir leikmenn og aðstandendur þeirra. Tókst á síðasta tímabili að fá styrktaraðila fyrir 1. deild karla og kvenna, Rafland, sem er vel. Við eigum frábært fólk innan hreyfingarinnar sem hefur reynst boðið og búið til að aðstoða við þetta. Þegar samhugur er þar og breiðfylking að störfum verða stærstu viðburðir okkar að hátíð eins og sannaðist á nýafstöðnu Íslandsmóti unglinga í Hrafnagili í Eyjafðararsveit. Hluti af þessu er jafnframt að nýta samfélagsmiðla eins og Facebook og Youtube en mótahaldi hefur síðustu tvö tímabil verið streymt á þeim miðlum.
Þriðji þátturinn í uppbyggingarstarfi er að iðkendur okkar og afreksefni hafi verkefni sem þau geti einbeitt sér að. Þar verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti og vera snjöll sem við höfum reynt með því að finna mót erlendis fyrir mini cadet og cadet í Riga í Lettlandi og í Finnlandi. Horfum við til annarra verkefna t.d. í Belgíu. Um er að ræða styttri ferðir sem stækka sjóndeildarhring leikmanna og hefur reynst góður hvati fyrir leikmenn að leggja sig fram á æfingum félaganna eftir að heim er komið. Einnig þurfum við að finna afreksfólki okkar verkefni sem við hyggjumst gera m.a. með því að senda þau í æfingabúðir erlendis.
Landslagið er að breytast þessi misserin innan hreyfingarinnar. Í fyrsta sinn var árið 2017 keppt í flokki 13 ára og yngri í flokkakeppni unglinga og hafa sterkustu leikmennirnir í öllum aldursflokkum verið að koma úr fleiri félögum en áður. Hlúa þarf að þeim vaxtarbroddi.
Ég er verulega bjartsýnn á framtíðina enda finn ég nú meiri samhug og samheldni innan hreyfingarinnar en oft áður. Ég hefði ekki getað verið heppnari með stjórnarmenn á því tímabili sem er að líða og vil ég sérstaklega þakka þeim samfylgdina. Næsta stóra verkefni er að auka fjölda iðkenda með kynningu á íþróttinni og er það verkefni sem ég vil einbeita mér að á komandi tímabili.
Hér er að finna ársskýrslu BTÍ 2016-2018. Eins og hún ber með sér þá hefur ýmislegt átt sér stað á þeim tíma. Er nú tími til að gefa enn meira í.
Kær kveðja,
Ingimar Ingimarsson
Formaður BTÍ