Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Aleksey Yefremov genginn til liðs við BTÍ

Um nokkurn tíma hefur Borðtennissamband Íslands staðið í viðræðum við þjálfarann Aleksey Yefremov  um þjálfun landsliða. Fyrr í dag var það endanlega staðfest að Aleksey verður þjálfari fullorðinslandsliða og einnig til leiðsagnar sem landsliðsráðunautur varðandi val á mót/æfingabúðir og uppbyggingu afreksstarfs sambandsins. Það verkefni sem horft verður til og undirbúið á næsta ári fram til júni eru Smáþjóðaleikarnir sem fram fara í lok maí í Svartfjallalandi. Undirbúningur að því er Arctic mótið sem haldið verður á Íslandi í apríl/maí.  Einnig verður skoðað að fara á önnur mót eins og HM í einstaklingskeppni sem fram fer í Búdapest Ungverjalandi í lok apríl 2019.

Aleksey er 43 ára gamall og er hann frá Hvíta Rússlandi og spilaði með Hvít Rússneska karlalandsliðinu. Talar hann mjög góða ensku. Lauk hann háskólanámi í íþróttafræði árið 1996 frá háskólanum í Minsk. 1997 til 2004 starfaði hann sem yfirþjálfari félagsliða í Króatíu. Frá 2004 til 2007 var landsliðsþjálfari Guatemala og frá janúar 2008 til janúar 2009 yfirþjálfari landsliða Indlands þar sem hann þjálfaði m.a. Sharath Kamal Achanta og Soumajit Gosh. Frá 2009 til 2011 var hann yfirþjálfari hjá Club El Ahly og landsliðum Egyptalands þar sem hann þjálfaði m.a. Omar Assar og El Sayed Lashin. Frá 2011 til 2016 hefur hann verið þjálfari landsliða í Suður Ameríku, nánar tiltekið 2011 til 2013 í Kólombíu og 2013 til 2016 í Perú. Frá því í september 2017 hefur hann verið þjálfari hjá þremur félögum í vestari hluta Noregs, þ.e.  Sportklubben Heros, Laksevag BTK og Fjell Kamerate. Er hann búsettur í Bergen Noregi.

Aleksey mun koma til Íslands fjórum sinnum á keppnistímabilum og fylgja fullorðinslandsliðum á ferðum þeirra erlendis. Honum til aðstoðar varðandi aðrar æfingar landsliðshópa verður unglingalandsliðsþjálfari auk þess sem horft er til þess að hann verði til leiðsagnar þjálfurum aðildarsambanda BTÍ.

Aleksey kemur til landsins dagana 22.-25. nóvember nk. og mun fylgjast með Raflandsdeild karla og kvenna sem fram fer hjá Víkingum laugardaginn 24. nóvember auk þess sem hann verður með stífar æfingar fyrir landsliðshópa sem munu samanstanda af 6 körlum og 6 konum.

Borðtennissambandið býður Aleksey velkominn til starfa um leið og það þakkar Ólafi Þór Rafnssyni góð störf hans.

 

 

Aðrar fréttir