Staðan að loknum tveimur mótum í aldursflokkamótaröðinni
Í aldursflokkamótaröð Borðtennissambands Íslands hafa tvö mót farið fram á þessu keppnistímabili. Skv. mótaskrá eru a.m.k. tvö mót eftir en ekki hefur verið birt dagsetning á móti á vegum Umf. Samherja, sem kemur í stað móts sem var á mótaskrá í nóvember en þurfti að fella niður.
Stjórn BTÍ hefur breytt reglugerð um aldursflokkamótaröðina á þann veg að ekki verður haldið lokamót heldur verða veitt verðlaun fyrir heildarárangur á mótaröðinni á síðasta mótinu í röðinni. Það mót er á mótaskrá þann 28. apríl.
Þessir leikmenn eru í forystu í sínum flokki að loknum tveimur mótum: Nikulás Dagur Jónsson, BH (hnokkar 11 ára og yngri); Elísa Þöll Bjarnadóttir, HK (tátur 11 ára og yngri); Kristófer Júlían Björnsson, BH (piltar 12-13 ára), Guðrún Margrét Sveinsdóttir, Dímon og Sól Kristínardóttir Mixa, BH (telpur 12-13 ára); Eiríkur Logi Gunnarsson, KR (sveinar 14-15 ára), Þuríður Þöll Bjarnadóttir, KR (meyjar 14-15 ára); Davíð Þór Ásgeirsson, BH og Ingi Darvis Rodriguez, Víkingi (drengir 16-18 ára) og Harriet Cardew, BH og Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi (stúlkur 16-18 ára).
Í viðhengi má sjá stöðuna í mótaröðinni að loknum þessum tveimur mótum: Aldursflokkamótaröðin 2018-19
Á forsíðumyndinni má sjá Harriet Cardew, sem er í forystu í stúlknaflokki með Stella Karen Kristjánsdóttur, þrátt fyrir að vera sjálf í meyjaflokki. Mynd af fésbókarsíðu BTÍ frá aldursflokkamóti á Hvolsvelli.
ÁMU