Fleiri sigrar unnust í Riga í dag
Íslensku leikmennirnir þrír á Riga City Council Cup héldu áfram keppni laugardaginn 28. október. Þeir léku upp fyrir sig í flokki sveina undir 16 ára (fæddir 2007 og síðar). Róðurinn var erfiðari en þegar þeir léku í eigin aldursflokkum, en allir unnu strákarnir nokkra leiki. Íslensku leikmennirnir höfnuðu í sætum 31 (Kristján), 46 (Benedikt) og 51 (Lúkas).
Alls var 61 þátttakandi í flokknum og var leikið um hvert sæti. Þegar leikið er á þennan hátt leikur hver leikmaður marga leiki en það skiptir miklu máli fyrir framhaldið hvenær í mótinu leikmenn tapa leik. Með einu tapi snemma í mótinu getur leikmaður fallið um tugi sæta í úrslitaröðinni en eftir því sem líður á keppnina er leikið við keppendur sem eru nær sama getustigi.
Kristján Ágúst Ármann lék í þriggja manna riðli og vann lettneskan leikmann 3-1 en tapaði 10-12 í oddalotu fyrir spilara frá Georgíu. Hann varð því í 2. sæti í riðlinum og hélt áfram leik í keppni um sæti 1-32.
Í útsláttarkeppninni tapaði Kristján fyrst fyrir Litháa og lék því um sæti 17-32. Næst tapaði hann fyrir norskum dreng og keppti um sæti 25-32. Þar tapaði hann 1-3 fyrir Letta og keppti þá um sæti 29-32. Næst tapaði hann í oddalotu fyrir leikmanni frá Englandi og lék því um sæti 31-32. Hann vann síðasta leikinn gegn eistneskum dreng í oddalotu og hafnaði í 31. sæti.
Benedikt Jiyao Davíðsson lék í fjögurra manna riðli og lagði leikmann frá Litháen og tapaði í oddalotu fyrir lettneskum leikmanna. Hann tapaði sömuleiðis fyrir norskum dreng og varð í 3. sæti í riðlinum. Hann lék því um sæti 33-61.
Benedikt byrjaði útsláttarkeppnina á því að leggja leikmann frá Litháen 3-0 en tapaði svo 9-11 í oddalotu fyrir Litháa. Næsti leikur var um sæti 41-48 en þar tapaði Benedikt fyrir eistneskum leikmanni. Hann keppti því um sæti 45-48 og vann litháskan dreng 3-2, 12-10 í oddalotunni. Lokaleikurinn var því um sæti 45 en þar tapaði Benedikt 1-3 fyrir lettneskum leikmann og varð því í 46. sæti.
Lúkas André Ólason tapaði öllum leikjum sínum í riðlinum, fyrir leikmönnum frá Englandi, Litháen og Póllandi og lék því um sæti 33-61. Hann tapaði fyrsta leiknum í úrslitakeppninni 1-3 fyrir Litháa og lék því um sæti 49-61. Þar vann hann tvo Letta í röð, báða 3-0, en tapaði 1-3 fyrir þeim þriðja. Hann lék því um sæti 51 og vann þann leik 3-1 gegn Litháa. Lúkas lauk því keppni í 51. sæti.
Íslensku drengirnir hafa því lokið keppni á mótinu.
Forsíðumynd frá mótinu tekin af Davíð Erni Halldórssyni.
Uppfært 29.10.