Ellert fékk annað gull í Gautaborg og Magnús Jóhann silfur
Keppni lauk á Klubbresornars klubbresa mótinu í Gautaborg sunnudaginn 9. júní. Íslensku keppendurnir kepptu í 1-2 flokkum þennan lokadag.
Ellert Kristján Georgsson vann 2000 stiga flokkinn, þar sem hann vann Magnús Jóhann Hjartarson 11-9 í oddalotu í úrslitum. Þeir lentu saman í riðli og þar vann Ellert líka í þeirra innbyrðis leik.
Ellert vann því tvo flokka á mótinu og fékk eitt brons, og Magnús Jóhann fékk silfur og brons.
Benedikt Aron Jóhannsson varð í 5.-8. sæti í 1400 stiga flokki, þar sem hann tapaði í oddalotu fyrir sigurvegaranum í flokknum í fjórðungsúrslitum. Þá varð hann í 9.-10. sæti í 1500 stiga flokki.
Helena Árnadóttir vann einn leik í riðlinum í 1000 stiga flokki og komst upp úr riðlinum á lotuhlutfalli. Hún hafnaði í 9.-12. sæti í flokknum. Þá tapaði Helena öllum leikjunum í riðlinum í 1100 stiga flokki.
Óskar Agnarsson vann tvo leiki af þremur í riðlinum í 2000 stiga flokki. Þrír leikmenn voru jafnir í 1.-3. sæti og Óskar sat eftir á lotuhlutfalli og komst ekki upp úr riðlinum.
Pétur Gunnarsson vann einn leik af þremur í riðlinum í 2000 stiga flokki. Hann lenti í því sama og Óskar, þar sem þrír voru jafnir í 2.-4. sæti og Pétur sat eftir á lotuhlutfalli.
Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir tapaði báðum leikjunum í riðlinum í 1400 stiga flokki í oddalotu. Hún tapaði svo öllum leikjunum í riðlinum í 1500 stiga flokki.
Gestur Gunnarsson tapaði öllum leikjum sínum í riðlinum í 2000 stiga flokki.
Aldís Rún Lárusdóttir dró sig úr keppni vegna veikinda en hún lék með hita bæði á föstudeginum og laugardeginum.
Matthias Sandholt lék ekki á sunnudeginum.
Forsíðumynd af leikmönnum úr A-landsliðshópnum á mótinu, frá Aldísi Rún Lárusdóttur.