Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Sex sigrar í einstökum leikjum í fyrstu riðlum á EM unglinga

Keppni á EM unglinga hófst að vanda með liðakeppni, og fór fyrsti hluti hennar fram 12. og 13. júlí. Nokkrir sigrar unnust í einstökum leikjum en allir liðsleikir töpuðust. Matthías Sandholt vann tvo leiki í einliðaleik og Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir og Helena Árnadóttir unnu tvo leiki í tvíliðaleik. Eiríkur Logi Gunnarsson og Kristján Ágúst Ármann unnu hvorn sinn leikinn í einliðaleik.

Júníorlið drengja, sem leikur í G-riðli, mætti Úkraínu í fyrsta leik, Liðið tapaði 1-3 en það var Matthías Sandholt sem vann fyrri leik sinn 3-1. Næst var leikið við Sviss en sú viðureign tapaðist 0-3 án þess að liðið ynni lotu. Lokaleikurinn var við Kýpur og hann var æsispennandi. Matthías vann fyrsta leikinn 3-1 en Alexander tapaði sínum leik 0-3. Eiríkur, sem lék sem 3. maður vann sinn leik 3-0 og Ísland komið 2-1 yfir. Matthías átti fjórða leikinn en tapaði honum 11-13 í oddalotu svo staðan varð jöfn, 2-2. Alexander tapaði svo lokaleiknum 0-3. Drengirnir höfnuðu því í 4. og neðsta sæti G-riðils.

Kadettlið meyja hóf keppni í H-riðli með leik við Belgíu. Leikurinn tapaðist 0-3 en þær Guðbjörg Vala og Helena unnu lotu í tvíliðaleik. Næst mætti liðið Danmörku, og tapaðist sá leikur líka 0-3 en aftur vannst lota í tvíliðaleik og Guðbjörg Vala vann lotu í einliðaleik. Þá var komið að Lettlandi en þar unnu stelpurnar tvíliðaleikinn 11-8 í oddalotu, auk þess sem Guðbjörg Vala tapaði báðum einliðaleikjum sínum 1-3. Lokaleikurinn var gegn Hollandi og aftur unnu stelpurnar tvíliðaleikinn 3-2. Einliðaleikirnir töpuðust en Guðbjörg vann eina lotu, svo leiknum lauk með sigri Hollands 3-1. Stúlkurnar höfnuðu því í neðsta sæti riðilsins.

Kadettlið sveina mætti fyrst Spáni í H-riðli og tapaði þeim leik 0-3. Þá var komið að Búlgaríu og fór sá leikur einnig 0-3, en Kristján og Lúkas unnu lotu í tvíliðaleik. Síðasti leikurinn var gegn Skotlandi. Kristján vann æsispennandi leik í einliðaleik sem fór 17-15 í oddalotu. Aðrir leikir töpuðust, svo leiknum lauk með 3-1 sigri Skotlands og liðið varð í neðsta sæti riðilsins.

Í næsta hluta keppninnar er aftur dregið í riðla byggt á úrslitum í fyrri riðlunum. Íslensku liðin ættu því að keppa með liðum sem eru nær þeim í styrkleika. Í lokin er svo spilað um einstök sæti.

Dregið hefur verið í næstu riðla og hefst keppni í þessari umferð 14. júlí.

Júníorlið drengja leikur í Q-riðli með Azerbaídjan, Grænlandi og Skotlandi.
Kadettlið meyja er í O-riðli með Búlgaríu, Danmörku, Noregi og Wales.
Kadettlið sveina leikur í O-riðli með Litháen og Bosníu Herzegóvínu.

Sjá má keppendur Íslands í frétt frá 29. júní sl.

Hér má sjá leiki og úrslit á mótsinu: https://www.ettu.org/en/events/european-youth-championships/draws–amp–results/

Mynd hér fyrir neðan frá Davíð Halldórssyni, af Benedikt Jiyao og Lúkasi með sænska leikmanninum Truls Möregårdh.

Aðrar fréttir