A-lið KR Íslandsmeistari í Raflandsdeild kvenna
Í kvöld fór fram síðari úrslitaleikurinn í Raflandsdeild kvenna milli A-liðs KR og Víkinga og fór hann fram á heimavelli Víkings í TBR-húsinu.
Í fyrstu viðureigninni í kvöld vann Aldís Rún, KR Stellu Karen úr Víkingi nokkuð örugglega 3-0. Í annarri viðureigninni sigraði Auður Tinna, KR Þórunni Ástu, Víkingi 3-0 og í tvíliðaleiknum unnu þær Aldís og Ásta, KR þær Stellu Karen og Þórunni Ástu einnig 3-0.
Í úrslitaviðureign liðanna tapaði KR ekki lotu. Eins og sjá má á tölunum hér fyrir neðan voru seinni tveir leikirnir þó jafnari en fjöldi unninna lota gefur til kynna. Auður Tinna vann seinni tvær loturnar gegn Þórunni í framlengingu. Í báðum lotunum var Auður yfir 10-7 en Þórunn gafst ekki upp og náði að jafna. Auður náði svo að hafa sigur í framlengingu. Í tvíliðaleiknum lauk seinni tveimur lotunum einnig með tveggja stiga sigri KR-kvenna.
Sýnt var frá leiknum á Facebook síðu BTÍ.
Úrslit úr einstökum leikjum
Víkingur – KR-A 0-3
Stella Karen Kristjánsdóttir – Aldís Rún Lárusdóttir 0-3 (8-11, 1-11, 5-11) 0-1
Þórunn Ásta Árnadóttir – Auður Tinna Aðalbjarnardóttir 0-3 (3-11, 10-12, 14-16) 0-2
Stella/Þórunn – Aldís/Ásta Urbancic 0-3 (6-11, 10-12, 9-11) 0-3
ÁMU, að hluta byggt á frétt frá II