Æfingabúðir ítalsks þjálfara
Helgina 6.-8. maí sl. hélt Mattia Luigi Contu, þjálfari toppliða á Sardiníu og nú í Tromsö í Noregi æfingabúðir fyrir A-landslið (3 æfingar) og unglingalandslið (4 æfingar) í íþróttahúsi Hagaskóla.
Mattia hefur keppt fyrir ítalska unglingalandsliðið og þjálfað borðtennisleikmenn á öllum aldri og getustigum, m.a. í Serie A á Ítalíu. Helsti árangur hans sem þjálfari er að ná bronsverðlaunum með kvennaliði Quattro Mori Cagliari í ETTU Cup bæði 2021 og 2022, sem kom þeim í Meistaradeildina á yfirstandandi tímabili. Þar þjálfaði hann m.a. Dragoman Andreea og Tania Plaian frá Rúmeníu. Einnig kom hann að sigri TT Zeus Quartu í ítalska Serie A tímabilið 2013-2014. Undanfarið ár hefur hann sinnt útbreiðslustarfi í Norður-Noregi en áhugi hans á íslenskum borðtennis kviknaði eftir að hann hafði séð útsendingu BTÍ frá Íslandsmótinu.
Mikil ánægja var með tæknilega ráðgjöf Mattia á æfingum og vonast sambandið til frekara samstarfs á næstunni.