Agnes og Ingi Darvis Íslandsmeistarar í meistaraflokki
Agnes Brynjarsdóttir og Ingi Darvis Rodriguez, bæði úr Víkingi, urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki á Íslandsmótinu í borðtennis, sem lauk í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði sunnudaginn 1. mars. Agnes varði titilinn, sem hún vann í fyrra en Ingi var að vinna sinn fyrsta titil.
Birgir Ívarsson og Magnús Gauti Úlfarsson, BH vörðu titilinn í tvíliðaleik en Harriet Cardew og Sól Kristínardóttir Mixa, BH, eru nýir meistarar í tvíliðaleik kvenna. Magnús Gauti og Sól unnu því tvo titila í meistaraflokki, þar sem þau léku saman í tvenndarleik og sigruðu í þeim flokki. BH vann því alla titlana í paraflokkunum.
Aðrir Íslandsmeistarar voru Eiríkur Logi Gunnarsson, KR og Sól Kristínardóttir Mixa, BH í 1. flokki, og Elvar Pierre Kjartansson, KR og Berglind Anna Magnúsdóttir, KR í 2. flokki.
Það má segja að Íslandsmótið 2020 hafi verið mót unga fólksins, því elstu Íslandsmeistarnir þetta árið eru fæddir árið 2000 (Birgir og Magnús Gauti) og þeir yngstu árið 2006 (Agnes, Berglind og Sól). Framtíðin er því sannanlega björt í íslenskum borðtennis.
Verðlaunahafar:
Meistaraflokkur kvenna
1. Agnes Brynjarsdóttir, Víkingi
2. Aldís Rún Lárusdóttir, KR
3.-4. Alexía Kristínardóttir Mixa, BH
3.-4. Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR
Hin 13 ára Agnes lék vel í úrslitaleiknum og varði titilinn, sem hún vann nokkuð óvænt í fyrra. Hún sigraði Aldísi 4-0 (11-5, 19-17, 11-4, 11-5) í úrslitum en þeim var raðað nr. 1 og 2 í flokknum. Agnes vann Kristínu 4-1 í undanúrslitum og Aldís lagði Alexíu 4-2 í hinum undanúrslitaleiknum.
Meistaraflokkur karla
1. Ingi Darvis Rodriguez, Víkingi
2. Magnús Gauti Úlfarsson, BH
3.-4. Birgir Ívarsson, BH
3.-4. Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, BH
Ingi Darvis lék til úrslita í meistaraflokki í fyrsta skipti og lagði meistara síðustu tveggja ára, Magnús Gauta 4-1 (11-3, 7-11, 11-3, 11-6, 11-7) í hröðum og vel leiknum úrslitaleik. Þeir félagar hafa verið saman í Bergen í Noregi í vetur og búið saman, æft og leikið með norsku félagi. Það hefur greinilega skilað sér í þeirra leik. Ingi vann Birgi 4-1 í undanúrslitum en Magnús lagði Jóhannes 4-0.
1. flokkur kvenna
1. Sól Kristínardóttir Mixa, BH
2. Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR
3.-4. Ársól Clara Arnardóttir, KR
3.-4. Sandra Dís Guðmundsdóttir, BH
Sól bætti þriðja titilinum í safnið með sigri í 1. flokki en hún sigraði Kristínu 3-0 (11-8, 11-2, 11-8) i úrslitum. Í undanúrslitum sló hún út meistara síðasta árs, Ársól Clöru Arnardóttur 3-0.
1. flokkur karla
1. Eiríkur Logi Gunnarsson, KR
2. Pétur Marteinn Urbancic Tómasson, BH
3.-4. Gestur Gunnarsson, KR
3.-4. Matiss Meckl, Akri
Eiríkur Logi var óvæntur sigurvegari í flokknum, en honum var ekki raðað meðal fjögurra stigahæstu leikmanna. Hann vann síðustu fjóra leikina í flokknum í oddalotu, þar á meðal Gest eldri bróður sinn, sem sigraði í flokknum í fyrra, og Pétur í úrslitaleiknum (7-11, 11-6, 6-11, 11-7, 11-7). Matiss þurfti að gefa undanúrslitaleikinn vegna veikinda.
2. flokkur kvenna
1. Berglind Anna Magnúsdóttir, KR
2. Þuríður Þöll Bjarnadóttir, KR
3.-4. Guðrún Gestsdóttir, KR
3.-4. Lára Ívarsdóttir, KR
Berglind lagði Þuríði 3-1 (12-10, 7-11, 11-8, 11-8) í úrslitum en henni var raðað nr. 4 í flokknum. Skráðir keppendur voru 24 í flokknum, enda lögðu mótshaldarar mikið á sig til að fjölga keppendum í 2. flokki karla og kvenna.
2. flokkur karla
1. Elvar Pierre Kjartansson, KR
2. Reynir Georgsson, HK
3.-4. Guðjón Páll Tómasson, KR
3.-4. Jóhannes Kári Yngvason, KR
Elvar varði titilinn, sem hann vann í fyrra, og lagði Reyni 3-0 (11-8, 11-8, 11-9) í úrslitaleiknum. Skráðir keppendur voru 86, sem er líklega metþátttaka í flokki á Íslandsmóti.
Tvíliðaleikur karla
1. Birgir Ívarsson/Magnús Gauti Úlfarsson, BH
2. Ingi Darvis Rodriguez/Magnús Jóhann Hjartarson, Víkingi
3.-4. Daði Freyr Guðmundsson/Davíð Teitsson, Víkingi
3.-4. Davíð Jónsson/Skúli Gunnarsson, KR
Birgir og Magnús Gauti vörðu titilinn frá því í fyrra með sigri á Inga Darvis og Magnúsi Jóhanni 3-0 (11-6, 11-8, 11-9). Í undanúrslitum lögðu þeir Daða Frey og Davíð Teitsson úr Víkingi 3-0 en Ingi Darvis og Magnús Jóhann sigruðu Davíð Jónsson og Skúla Gunnarsson úr KR 3-1 í hinum undanúrslitunum.
Tvíliðaleikur kvenna
1. Harriet Cardew/Sól Kristínardóttir Mixa, BH
2. Agnes Brynjarsdóttir/Stella Karen Kristjánsdóttir,
Víkingi
3.-4. Alexía Kristínardóttir Mixa/Sandra Dís Guðmundsdóttir,
BH
3.-4. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir/Aldís Rún Lárusdóttir, KR
Harriet og Sól eru nýir meistarar í tvíliðaleik og slóu út meistara síðustu tveggja ára, Auði og Aldísi 3-0 í undanúrslitum. Í hinum undanúrslitunum unnu Agnes og Stella þær Alexíu og Söndru 3-0. Úrslitaleikurinn var sveiflukenndur en Harriet og Sól vantaði aðeins eitt stig til að vinna titilinn í 4. lotu. Það tókst ekki og Víkingsstúlkur voru með yfirhöndina framan af oddalotunni. BH stúlkurnar gáfust ekki upp og höfðu sigur með góðum endaspretti 3-2 (11-3, 3-11, 11-2, 12-14, 11-7).
Tvenndarleikur
1. Magnús Gauti Úlfarsson/Sól Kristínardóttir Mixa, BH
2. Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson/Ásta Melitta Urbancic,
BH/KR
3.-4. Davíð Jónsson/Aldís Rún Lárusdóttir, KR
3.-4. Magnús Jóhann Hjartarson/Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi
Magnús Gauti Úlfarsson og Sól Kristínardóttir Mixa úr BH urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik og var þetta þeirra fyrsti titill og fyrsti titill BH í tvenndarleik. Þau sigruðu mæðginin Ástu M. Urbancic, KR og Jóhannes Bjarka Urbancic Tómasson, BH 3-1 (11-2, 7-11, 11-1, 12-10) í úrslitaleik. Í 3.-4. sæti urðu Íslandsmeistarar síðustu þriggja ára Aldís Rún Lárusdóttir og Davíð Jónsson, KR og Stella Karen Kristjánsdóttir og Magnús Jóhann Hjartarson, Víkingi.
Öll úrslit á mótinu má sjá á vef Tournament Software, https://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament?id=9A1DE220-BF07-40A4-831D-A233AA4C4910
Forsíðumynd frá Brynjari Ólafssyni. Fleiri myndir af verðlaunahöfum væntanlegar.
Benda má á fína umfjöllun og myndir frá mótinu á vef Fjarðarfrétta, www.fjardarfrettir.is, þar á meðal eru myndir af öllum verðlaunahöfum.