Aldís og Davíð borðtennisfólk KR 2018
Nýlega voru afhentar viðurkenningar til borðtennisfólks KR 2018. Fyrir valinu urðu Aldís Rún Lárusdóttir og Davíð Jónsson. Það var stjórn deildarinnar 2017-2018 sem valdi þau Aldísi og Davíð og var tilkynnt um valið í apríl sl.
Eftirfarandi umsagnir um Aldísi og Davíð fylgdu frá stjórn deildarinnar:
Aldís Rún Lárusdóttir
Aldís varð þrefaldur Íslandsmeistari í borðtennis vorið 2018. Hún sigraði í tvíliðaleik með Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur, í tvenndarleik með Davíð Jónssyni og fékk brons í einliðaleik á Íslandsmótinu. Hún var líka í A-liði KR, sem varð deildarmeistari og Íslandsmeistari í 1. deild kvenna fjórða árið í röð, og tapaði Aldís ekki leik í deildarkeppninni á keppnistímabilinu.
Aldís lék með landsliðiðinu á Smáþjóðaleikunum sumarið 2017 og hefur verið valin í liðið, sem keppir á Arctic mótinu á Grænlandi í maí 2018.
Auk þess hefur Aldís verið formaður Borðtennisdeildar KR undanfarin ár og verið öflugur leiðtogi borðtennisfólks innan félags sem utan.
Davíð Jónsson
Davíð varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik á Íslandsmótinu 2018 með Skúla Gunnarssyni og í tvenndarleik með Aldísi Rún Lárusdóttur. Þá varð Davíð í 2. sæti í einliðaleik og lék með bronsliði KR-A í 1. deild karla.
Davíð stundar nám í Slóvakíu, og hefur því ekki tekið þátt í mörgum mótum á Íslandi á keppnistímabilinu. Davíð sigraði á Grand Prix móti BH í janúar, sem var eina mótið sem hann lék á, utan Íslandsmótsins. Hann hefur verið valinn í landsliðið fyrir Norður-Evrópumótið, sem fram fer í Eistlandi í maí.
Á forsíðumyndinni má sjá þau Davíð og Aldísi.
ÁMU