Aldís og Davíð sigruðu á Grand Prix móti BH
Aldís Rún Lárusdóttir, KR og Davíð Jónsson, KR sigruðu á Grand Prix móti BH, sem fram fór í Íþróttahúsinu við Strandgötu laugardaginn 13. janúar. Keppt var í opnum flokki karla og kvenna og einnig í B-keppni, fyrir þá sem töpuðu í fyrstu umferð. Alls voru 30 keppendur skráðir til leiks frá Akri, BH, KR og Víkingi.
Davíð sigraði Magnús Jóhann Hjartarson úr Víkingi 4-1 (11-5, 11-6, 11-3, 10-12, 11-5) í úrslitum. Davíð er heima í jólafríi og í starfsnámi frá læknanámi í Slóvakíu. Í undanúrslitum lagði Davíð Jóhannes Bjarka Urbancic Tómasson úr BH 4-1 í öðrum undanúrslitaleiknum og Magnús vann Magnús Gauta Úlfarsson úr BH 4-1 í hinum undanúrslitunum. Þetta var fyrsti leikur sem Magnús Gauti tapar á Grand Prix móti BH síðan þau hófust.
Aldís mætti Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur úr KR í úrslitnum. Leikurinn Aldísar og Auðar var spennandi og lauk með tveggja stiga mun í 7. og síðustu lotu (9-11, 11-2, 11-7, 11-6, 9-11, 6-11, 11-9). Aldís vann Önnu Sigurbjörnsdóttur, KR 4-0 í undanúrslitum. Anna hefur nýlega tekið upp spaðann aftur eftir langt en hún lék áður fyrir Stjörnuna. Í hinum undanúrslitunum vann Auður Stellu Karen Kristjánsdóttur úr Víkingi 4-1.
Thomas Charukevic úr BH sigraði í B-keppni karla og Ársól Arnardóttir, KR í B-keppni kvenna.
Verðlaunahafar
Opinn flokkur karla
- Davíð Jónsson, KR
- Magnús Jóhann Hjartarson, Víkingi
3.-4. Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, BH
3.-4. Magnús Gauti Úlfarsson, BH
Opinn flokkur kvenna
- Aldís Rún Lárusdóttir, KR
- Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR
3.-4. Anna Sigurbjörnsdóttir, KR
3.-4. Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi
B-flokkur karla
- Thomas Charukevic, BH
- Markus Meckl, Akri
3.-4. Gestur Gunnarsson, KR
3.-4. Hlynur Sverrisson, Akri
B-flokkur kvenna
- Ársól Arnardóttir, KR
- Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR
3.-4. Lára Ívarsdóttir, KR
3.-4. Þuríður Þöll Bjarnadóttir, KR
Myndir frá Ingimar Ingimarssyni nema forsíðumyndin, sem sýnir Aldísi og Davíð þegar þau urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik fyrir 3 árum.
ÁMU (uppfært og myndir settar inn 14.1.)