Aldís og Guðrún komust í undanúrslit í B-keppninni á HM öldunga
B-keppnin á HM öldunga í Róm hófst 11. júlí, þar sem þær Aldís Rún Lárusdóttir og Guðrún G Björnsdóttir tóku þátt í flokki 40 ára og eldri. Þær kepptu í B-keppninni þann 11. og 12. júlí en áttu því miður bókað flug heim þann 13. júlí og þurftu því að gefa síðustu leiki sína á mótinu.
Í tvíliðaleik unnu þær Aldís og Guðrún par frá Spáni í fjórum jöfnum lotum í 16 manna úrslitum í B-keppninni í tvíliðaleik og lögðu par frá Póllandi 3-1 í 8 manna úrslitum. Þær voru því komnar í undanúrslit, þar sem þær áttu að mæta pari frá Þýskalandi en þær þurftu að gefa leikinn sem fór fram þann 13. júlí.
Guðrún lagði leikmann frá Portúgal 3-0 í 32 manna úrslitum í einliðaleik í B-keppninni og þýska konu 3-0 í 16 manna úrslitum. Í 8 manna úrslitum átti hún að mæta leikmanni frá Belgíu en þurfti að gefa leikinn vegna heimferðarinnar.
Aldís tapaði í oddalotu fyrir konu frá Úkraínu í 32 manna úrslitum í einliðaleik.
Þær Aldís og Guðrún áttu að mætast í 64 para úrslitum í tvenndarleik, þar sem Aldís lék með leikmanni frá Indlandi og Guðrún með Ítala. Indverjinn var farinn heim og því komust Guðrún og hennar meðspilari áfram í 32 manna úrslit. Þar töpuðu þau 0-3 fyrir þýsku pari og voru þar með úr leik.
Forsíðumynd frá Aldísi.