Almannavarnir og ÍSÍ beina þeim tilmælum til allra sambandsaðila að fella allar æfingar niður
Í ljósi ástandsins nú og fyrirmæla almannvarna og ÍSÍ, nú síðast á fréttamannafundinum í dag sunnudaginn 22. mars, er ljóst að ekki er ætlast til þess að æfingar séu í gangi og skiptir ekki máli hvaða hópar eiga þar í hlut enda nær ómögulegt að tryggja að ekkert smit geti orðið á þeim. Beinir BTÍ því þeim tilmælum til aðildarfélaga sinna að fella niður allar æfingar til að sýna samstöðu í verki og ábyrgð.
Hér að neðan er tilkynningin frá ÍSÍ
„Sóttvarnalæknir vill árétta að í auglýsingum heilbrigðisráðherra um samkomubann og um takmarkanir á skólastarfi er fjallað um að nálægð einstaklinga verði ekki minni en tveir metrar ef því er við komið. Einnig er ljóst að með vísan í leiðbeiningar um almennar sóttvarnaráðstafanir t.d. varðandi hreinlæti og smitleiðir að sameiginleg notkun á hverskonar búnaði til íþróttaiðkunar boltum, dýnum, rimlum, handlóðum, skíðalyftum og margs fleira án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga er mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir.
Því er augljóst að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa.
Sóttvarnalæknir vill beina því til Íþrótta- og ólympíusambands Íslands að, líkt og gert hefur varðandi börn og ungmenni, að tekið verði hlé í æfingum og keppnum á vegum sambandsins og aðildarfélaga þeirra á meðan samkomubann varir.“ (birt á Facebook síðu Almannavarna).
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og UMFÍ treysta því að öll íþróttahreyfingin muni fara að þessum afgerandi tilmælum og að allt íþróttastarf falli tímabundið niður. Það er augljóslega ekki auðvelt fyrir íþróttahreyfinguna en við þessar aðstæður er mjög mikilvægt að þjóðin standi saman sem einn maður og að íþróttahreyfingin sýni fulla samstöðu og ábyrgð.