Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Andlát – Hjálmar Aðalsteinsson

Fallinn er frá borðtennismaðurinn, þjálfarinn og landsliðsþjálfarinn Hjálmar Aðalsteinsson en hann lést á Landspítalanum þann 25. janúar sl., 65 ára að aldri.

Hjálmar varð árið 1973 Íslandsmeistari í meistaraflokki karla og í tvenndarkeppni með Sigrúnu Pétursdóttur 1973 og 1974. Árið 1975 varð hann Íslandsmeistari í tvíliðaleik karla með félaga sínum Finni Snorrasyni. Sama ár vann hann leik gegn kínverska landsliðinu í heimsókn kínverska landsliðsins til Íslands. Hjálmar varð margfaldur Íslandsmeistari í liðakeppni karla með KR milli 1980 og 1990 og Íslandsmeistari í einliðaleik karla 40 ára og eldri árið 1988. Keppti hann einnig fyrir Íslands hönd á fyrsta heimsmeistaramótinu sem Ísland sendi keppendur á í Birmingham Englandi árið 1977 og einnig á heimsmeistaramótinu í Novi Sad í (þá) Júgóslavíu 1981. Hann keppti á ferli sínum 29 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hjálmar útskrifaðist frá Íþróttakennaraskóla Íslands 1982 og dvaldi hann við nám í Danmörku sama ár í spaðaíþróttum. Var hann landsliðsþjálfari 1981-1983 og aftur í ferð landsliðsins til Færeyja 1992. Fór hann fjölmargar ferðir erlendis bæði sem leikmaður og þjálfari.

Hjálmar sinnti af alúð þjálfun í borðtennisdeild KR á áttunda og níunda áratug síðustu aldar bæði hjá byrjendum, lengra komnum og meistaraflokksleikmönnum. Hann var duglegur að taka bæði myndir og myndbönd og læra af þeim á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en þá voru leikmenn ekki svo lánsamir að geta farið á Youtube til að skoða tækni og högg. Þurfu menn að grípa til annarra ráða til að bæta sig. Hjálmar var úrræðagóður og keypti hann blöð og rýndi í þau lúbb hreyfingar meistaranna til að geta sér til um hvernig höggið liti út.

Það var alltaf stutt í brosið hjá Hjálmari og upplifðu leikmenn hans það sterkt að honum var umhugað að leikmenn næðu árangri, hvort heldur persónulega eða í keppni.

Á tíunda áratugnum sneri Hjálmar sér meira að tennisíþróttinni þar sem hann náði einnig góðum árangri. Hann var alla tíð mikið í líkamsrækt og hjólaði mikið í stað þess að nota bíl. Var hann öðrum fyrirmynd í þeim efnum.

Borðtennisfólk á Íslandi vottar fjölskyldu Hjálmars samúð sína.  Fallinn er frá maður sem átti stóran og mikinn þátt í uppbyggingu borðtennisíþróttarinnar á Íslandi. Afburðar liðsfélagi og þjálfari sem náði mjög vel til leikmanna. Verður Hjálmars ávallt minnst með hlýhug. 

Mynd tekin af Birni Jónssyni

Mynd efst var tekin af Tómasi Sölvasyni

Aðrar fréttir