Ársþing BTÍ mánudaginn 28. október 2013
Ársþing BTÍ var haldið þann 26. september sl. Á þinginu kom í ljós að ekki höfðu formenn allra aðildarfélaga verið boðaðir með sannanlegum hætti á þingið. Var á þinginu kynnt ársskýrsla og ársreikningar. Það var ályktun fundarins að freista þess að halda þinginu áfram þriðjudaginn 15. október 2013 kl. 19.30 og þá í sátt við formenn allra aðildarfélaga sem hefðu þá tök á að gera viðeigandi ráðstafanir fyrir þingið. Í kjölfar þingsins var reynt að ná sátt um þá dagsetningu og halda þinginu þar áfram en ekki náðist samkomulag um það.
Sá stjórn BTÍ sér því ekki annað fært þann 28. september sl. en að boða aftur til þingsins með lögmætum eins mánaðar fyrirvara eins og Lög BTÍ áskilja.
Verður ársþing Borðtennissambands Íslands því haldið mánudaginn 28. október nk. í Kaffiteríu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í Reykjavík. Þingsetning verður kl. 19.30. Verður á þinginu að nýju kynnt ársskýrsla og ársreikningar og kosið í stjórn. Á það er minnt, að frestur til að skila inn breytingartillögum á lögum og reglugerðum er tvær vikur fyrir þing og því þarf að skila inn breytingartiillögum til skrifstofu BTÍ eigi síðar en 15. október nk. Ekki verður tekið við breytingartillögum eftir þann tíma. Skrifstofa BTÍ mun síðan senda breytingartillögur út til kynningar viku fyrir þing.