Ásta Laufey Sigurðardóttir látin
Ásta Laufey Sigurðardóttir, borðtennisfrömuður úr Dímon er látin. Ásta lést þann 1. maí sl. eftir baráttu við krabbamein.
Útför Ástu Laufeyjar fer fram frá Breiðabólstaðarkirkju 10. maí kl. 14.
Ásta lék, ásamt Ólafi Elí Magnússyni eiginmanni sínum lykilhlutverk í uppbyggingu borðtennis á Hvolsvelli. Hún var um tíma formaður og gjaldkeri Íþróttafélagsins Dímonar, og keppti fyrir félagið í borðtennis um margra ára skeið. Þau Ólafur Elí skipulögðu ásamt öðru Dímonarfólki ófá borðtennismótin, s.s. Íslandsmót unglinga, héraðsmót HSK og Dímonarmót á sumardaginn fyrsta og fyrsta vetrardag. Þá voru oft haldnar æfingabúðir í borðtennis fyrir unglinga á Hvolsvelli í samstarfi við önnur félög.
Þau Ásta Laufey og Ólafur Elí fengu sérstaka heiðursviðurkenningu vegna framlags þeirra til íþrótta- og æskulýðsmála í sveitarfélaginu árið 2021, og er forsíðumyndin tekin frá afhendingu hennar þann 17. júní 2021, tekin af vef sunnlenska.is.
Þá voru Ásta Laufey og Ólafur Elí heiðruð árið 2013 fyrir starf sitt í þágu íþrótta með veitingu silfurmerkis ÍSÍ, og var myndin hér fyrir neðan tekin af því tilefni. Með þeim á myndinni eru Jón Gestur Viggósson, þá í framkvæmdarstjórn ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir þáverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ. Myndin er tekin af vefnum www.hvolsvollur.is.