Bergrún, Kári og Skúli unnu þrjá titla á Íslandsmóti unglinga um helgina
Á seinni degi Íslandsmóts unglinga réðust úrslit í 14 flokkum í einliðaleik og tvíliðaleik.
Bergrún Linda Björgvinsdóttir, Dímon; Kári Mímisson, KR og Skúli Gunnarsson, KR, lönduðu þremur Íslandsmeistaratitlum á mótinu. Fríður Rún Sigurðardóttir, KR; Kolfinna Bergþóra Bjarnadóttir, HK; Ólafur Cesarsson, KR og Stefanía Katrín Einarsdóttir, KR unnu tvo titla hvert.
KR vann flesta titla félaga, 16 talsins, HK vann tvo titla, Dímon vann ígildi tveggja titla (einn titil í einliðaleik og titil í tvíliðaleik og tvenndarkeppni með meðspilara úr KR) og Víkingur vann einn titil.
KR vann líka flest verðlaun félaga. Keppendur úr nýstofnaðri Borðtennisdeild Badmintonfélags Hafnarfjarðar unnu fyrstu verðlaun félagsins á Íslandsmóti í borðtennis. Einnig fóru keppendur úr Akri og Ungmennafélagi Hrunamanna heim með verðlaun.
Guðjón Páll Tómasson úr KR varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik pilta í dag og varð þar með sjötti og síðasti meðlimur fjölskyldu sinnar til að verða Íslandsmeistari í borðtennis. Báðir foreldrar hans (Ásta Urbancic og Tómas Guðjónsson) og þrjú eldri systkini (Pétur Marteinn, Jóhannes Bjarki og Sigrún Ebba) hafa orðið Íslandsmeistarar í borðtennis.
Finnur Hrafn Jónsson hefur sett um 40 klippur úr leikjum inn á YouTube. Myndskeiðin eiga að koma efst á listanum en annars má leita eftir leitarorðinu IMU12. Sjá http://www.youtube.com/btisland
Þá hefur hann sett myndir sínar af verðlaunahöfum á opna Facebook síðu, sjá http://www.facebook.com/media/set/?set=a.10150661239645690.413989.693390689&type=1&l=31d77e4406
ÁMU (uppfært 12.3.)
Bergrún og Skúli unnu þrjá Íslandsmeistaratitla hvort. Hér eru þau með verðlaunahöfum í tvenndarkeppni 16-18 á mynd frá Finni Hrafni Jónssyni.