BH-A og Víkingur deildarmeistarar í Keldudeildinni
BH-A urðu deildarmeistarar karla og Víkingur deildarmeistarar kvenna eftir að tvær síðustu umferðirnar í Keldudeildinni fóru fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu laugardaginn 17. apríl.
BH-A lauk keppni með fullt hús stiga, 20 stig, Víkingur-A og KR-A höfðu 14 stig og HK-A 10 stig. Þessi fjögur lið leika í undanúrslitum laugardaginn 24. apríl þar sem BH-A mætir HK-A og Víkingur-A leikur við KR-A.
HK-B féll úr efstu deild karla og Víkingur-B leikur úrslitaleik við silfurhafa 2. deildar um laust sæti í efstu deild.
Víkingskonur vörðu deildarmeistaratitilinn og sigruðu KR-A í lokaleiknum. Þær luku keppni með 16 stig en KR-A hafði 12 stig en leikin var þreföld umferð í kvennadeildinni. Þessi tvö lið leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Þar sem aðeins fjögur lið voru skráð í deildina á þessu keppnistímabili leika aðeins tvö lið til úrslita en ekki fjögur eins og í karlaflokki.
Í liði deildarmeistara BH-A í karlaflokki í vetur voru Birgir Ívarsson, Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, Magnús Gauti Úlfarsson, Pétur Marteinn Urbancic Tómasson og Tomas Charukevic.
Í liði deildarmeistara Víkings í kvennaflokki voru Agnes Brynjarsdóttir, Lóa Floriansdóttir Zink, Nevena Tasic og Stella Karen Kristjánsdóttir.
Úrslit úr einstökum leikjum:
Keldudeild karla
- HK A – Víkingur B 3-0
- KR A – HK B 3-0
- BH A – Víkingur A 3-0 (Víkingar mættu ekki til leiks)
- KR A – Víkingur A 3-0 (Víkingar mættu ekki til leiks)
- BH A – HK A 3-2
- Víkingur B – HK B 3-2
Keldudeild kvenna
- Víkingur – KR A 3-1
- KR B – BH 3-0 (BH mætti ekki til leiks)