Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

BH Íslandsmeistari í borðtennis í annað sinn

Úrslit réðust i deildakeppni karla í borðtennis í dag. Í 1. deild léku til úrslita lið KR A og BH A. KR-ingar eru ríkjandi Íslandsmeistarar en urðu í öðru sæti í deildakeppninni í ár á eftir BH-ingum sem urðu deildarmeistarar þetta árið. Leikmenn BH mættu mjög ákveðnir til leiks og komust í 4-0 en vinna þarf sex leiki til að sigra viðureignina. KR ingar veittu hins vegar BH harða keppni í fyrstu tveimur leikjunum þar sem þurfti oddalotu til að knýja sigur. Leikið er á tveimur borðum samtímis í deildakeppni og staðan eftir sex leiki var 5-1 BH í vil. Í næstu viðureign var keppt í tvíliðaleik þar sem KR ingar unnu og staðan var orðin 5-2. Að lokum var það Magnús Gauti Úlfarsson sem landaði titlinum fyrir BH inga með öruggum sigri í lokaleiknum. Niðurstaðan 6-2 sigur fyrir BH sem þar með urðu Íslandsmeistarar í liðakeppni í annað sinn í sögu félagsins.

Magnús Gauti Úlfarsson tryggði sigur BH í dag

Fyrr í dag var einnig leikið til úrslita í 2. og 3. deild karla. KR B varð Íslandsmeistari í 2. deild karla með öruggum 6-0 sigri á HK B og liðið leikur því i 1. deild á næsta ári. Liðin höfðu sætaskipti frá deildakeppninni þar sem HK B varð deildarmeistari. Í 3. deild karla sigraði lið Víkings C eftir eftir 6-3 sigur á KR E en Víkingar C fóru taplausir í gegnum deildakeppnina og leika í 2. deild á næsta tímabili.

KR B – Íslandsmeistarar í 2. deild 2023

Víkingur C – Íslandsmeistarar í 3. deild karla 2023

Á morgun, sunnudaginn 30. apríl, verður leikið til úrslita í 1. deild kvenna en þar mætast lið KR og Víkings. Leikurinn fer fram í Íþróttahúsi Hagaskóla kl. 13. Streymt verður frá keppninni á YouTube rás Borðtennissambands Íslands líkt og var gert í dag frá keppni í 1. deild karla.

 

Forsíðumynd af Íslandsmeisturum BH A og liði KR A. Í liði Íslandsmeistara BH voru Magnús Gauti Úlfarsson, Jóhannes Bjarki Tómasson Urbancic, Birgir Ívarsson og Pétur Marteinn Tómasson Urbancic.  Lið KR inga var skipað Ellerti Georgssyni, Gesti Gunnarssyni, Bedö Nerbo og Skúla Gunnarssyni.

Aðrar fréttir