Björgvin og Hákon leika á Opna tékknenska
Þeir Björgvin Ingi Ólafsson úr HK og Hákon Atli Bjarkason úr ÍFR leika þessa dagana á Opna tékknenska meistaramótinu sem haldið er í Prag. Í gær léku þeir í einliðaleik þar sem Hákon leikur í flokki 5 á meðan Björgvin sem leikur á sínu fyrsta móti erlendis leikur í flokki 7.
Hákon lék vel í gær og var nálægt því að komast í undanúrslit en hann tapaði 3 – 1 fyrir leikmanni frá Síle í lokaleiknum sínum. Áður hafði hann sigrað Nemamja Curic frá Serbíu og tapað fyrir Jiri Zak frá Tékklandi. Björgvin lék við leikmenn frá Belgíu og Tékklandi og tapaði því miður báðum leikjunum 3 – 0 en átti fína spretti inná milli. Eins og áður segir er þetta fyrsta mót Björgvins erlendis svo það má segja að þetta hafi verið feitur tékki í reynslubankan fyrir hann.
Í dag leika þeir svo í liðakeppni, Hákon spilar með með Sebastian Vegsund frá Noregi í flokki sitjandi 3-5 og Björgvin leikur með Steffen Salomonsen einnig frá Noregi í flokki 8-10 standandi.
Með þeim í för er þjálfarinn Bjarni Bjarnason sem er þeim til halds og traust.