Borðtennis er vinsælasta íþróttin að Laugalandi
Þau tíðindi hafa borist Borðtennissambandi Íslands frá Laugalandi í Holtum að borðtennis sé orðin vinsælasta íþróttin hjá íþróttafélaginu Garpi.
Í Laugalandsskóla eru um 100 nemendur og hefur borðtennisiðkendum meðal þeirra fjölgað undanfarið, þannig að nú æfir um þriðjungur nemenda skólans íþróttina. Aðrar íþróttir hjá félaginu eru blak, frjálsar íþróttir, körfubolti og handbolti.
Þjálfarar félagsins eru Bæring Jón Breiðfjörð Guðmundsson og Rubén Illera López auk Antons Óskars Ólafssonar, aðstoðarþjálfara. Bæring hefur þjálfað hjá borðtennisdeild Garps frá stofnun hennar árið 2018 og Rubén, sem býr á Selfossi bættist við þjálfarateymið haustið 2023. Æft er í þremur æfingahópum.
Árangur ungmenna félagsins hefur vakið athygli undanfarin misseri, bæði með þátttöku leikmanna í unglingalandsliðshópum og á mótum. Sem dæmi má nefna að félagið átti flesta leikmenn og verðlaunahafa á Íslandsmótinu í flokkakeppni unglinga í nóvember sl. og í vor vann félagið borðtennishluta héraðsmóts HSK, þar sem öll sjö starfandi félögin á Suðurlandi eru gjaldgeng.
Í vor mun borðtennisdeild Garps halda fyrsta opna mót félagsins og verður það sunnudaginn 27. apríl nk. með aðstoð frá fulltrúum BTÍ. Vonumst við eftir góðri þátttöku þar.
Myndir frá Garpi af tveimur af þremur æfingahópum félagsins.