Borðtennisæfingar hafnar á Laugarvatni
Á þessu ári hefur verið mikil gróska í borðtennisstarfi á landinu, ný félög spretta upp víða um land og þar fer Suðurland fremst í flokki. Nýjasta viðbótin þar er nýstofnuð spaðadeild UMFL á Laugarvatni þar sem boðið er upp á badminton og borðtennis.
Starfið hefst af miklum krafti en allt að 40 krakkar mæta á spaðaæfingar tvisvar í viku. Af þeim eru 20-30 að spila borðtennis. Deildin er með tvö borð en unnið er að því að fjölga borðum sem fyrst með styrkjum.
Halldóra Ólafs, Íslandsmeistari í borðtennis 2003 og 2011, er fyrsti formaður deildarinnar og mikill fengur að því að fá hana til liðs við íþróttina á nýjan leik.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af æfingu með Mattia unglingalandsliðsþjálfara, Magnúsi Gauta landsliðsmanni og Halldóru Ólafs.