Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Borðtenniskennsla í Breiðholti

Undanfarnar vikur stóð útbreiðslunefnd BTÍ fyrir borðtenniskennslu í fimm grunnskólum í Breiðholti. Borðtennissambandið fékk sérstakan styrk frá íþróttasjóði Rannís í upphafi árs vegna borðtenniskennslu meðal innflytjenda á Íslandi og nýttist hluti hans vel í þetta verkefni.

Kennt var í íþróttatímum í öllum 4.-7. bekkjum Fellaskóla, Seljaskóla, Breiðholtsskóla og Ölduselsskóla og í 4.-6. bekk Hólabrekkuskóla, sem þýddi alls 20 kennslustundir. Allir skólarnir hafa yfir einu til fjórum borðtennisborðum að ráða og til viðbótar mættu fulltrúar BTÍ með tvö minni borð sem sambandið á og nýtir í kynningar.

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, formaður BTÍ var viðstödd allar kynningarnar og henni til aðstoðar voru Gestur Gunnarsson, Eyrún Elíasdóttir, Karl Andersson Claesson og Baldur Thor Aðalbjarnarson. Um 750 börn fengu kennslu í grunnatriðum og leikjum í borðtennis og um tugur íþróttakennara tók þátt.

Krakkarnir voru áhugasamir og fengu upplýsingar um borðtennisæfingar í Breiðholti að tíma loknum. Eyrún Elíasdóttir aðalþjálfari Borðtennisdeildar Leiknis segir að iðkendafjöldi hafi verið töluvert meiri á æfingum eftir að kynningarnar hófust.

Þá er vert að geta þess að fulltrúar BTÍ áttu fund með framkvæmdastjóra ÍR mánudaginn 25. nóvember sl. þar sem hún sýndi lausan sal sem félagið hefur áhuga á að nýta til borðtennisiðkunar.

Myndir frá Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur.

Aðrar fréttir