Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Borðtennismaður mánaðarins: Benedikt Aron Jóhannsson

Í janúar 2026 er það Benedikt Aron Jóhannsson, 17 ára, sem hlýtur nafnbótina borðtennismaður mánaðarins. Hann æfir með Víkingi í TBR á Íslandi og BTK Rekord í Helsingborg, Svíþjóð.

Benedikt hefur vakið athygli fyrir framfarir og góð úrslit meðal leikmanna unglingalandsliðsins undanfarin misseri, en hann flutti til Svíþjóðar í haust, gagngert til að halda áfram að efla sig í borðtennis. Útsendari Borðtennissambandsins greip hann á æfingu í TBR í jólafríinu til að spjalla, en hann mun búa áfram í Helsingborg í vor.

Benedikt stundar fjarnám í Fjölbrautarskólanum við Ármúla á milli þess sem hann mætir á tvær borðtennisæfingar á dag. Hann segist finna mikinn mun á sér frá því að hann flutti út:
„Æfingastandardinn er miklu hærri. Einn klukkutími þar er eins og þrír klukkutímar hér og líka bara fleiri sem æfa og keppa, þannig að hverju móti er nýr leikmaður.“

Ræturnar eru þó hjá Víkingi, en hann byrjaði æfa tólf ára þar hjá Jóhanni Emil Bjarnasyni og Nevenu Tasic.

Spurður um val á gúmmíi svarar Benedikt:
„Ég nota Tibhar Hybrid K3. Ég er svolítið mikill svona gúmmínörd og hybrid gúmmí hentar mér vel út af því að mér finnst perfekt kraftur í því og snúningur, þannig að ég næ svolítið að nota það til að stjórna mínu spili.“ Og þá þarf enginn að velkjast í vafa um það héðan af.

Hvað hjátrú eða hefðir á leikdögum varðar er Benedikt praktískur:
„Ég myndi bara segja að nota nuddrúllu og teygja og svona, þannig hita upp almennilega svo ég meiði mig ekki meira út af því að ég á til að meiða mig stundum.“

Næst spurðum við Benedikt um uppáhalds sigurinn hans:
„Ég myndi segja að það væri á móti Kristjáni Ágústi Ármann á Íslandsmótinu í 1. flokki 2025. Aðallega bara út af pressunni og að keppa á móti mjög góðum vini mínum sem ég hafði ekki keppt á móti í langan tíma. Síðasta skiptið sem ég myndi keppa í fyrsta flokki og alls konar.“ Hér vísar Benedikt til úrslitaleiksins í 1. flokki karla á síðasta Íslandsmóti, en hann vann þann leik á heimavelli og skaust hátt upp í meistaraflokk á grundvelli úrslita mótsins.

Áttu góða sögu borðtennisferð?
„Já, eh, það er þarna bara seinast hérna á EM unglinga 2025 þarna í Tékklandi. Við vorum að keppa við junior-lið á móti Bosníu og ég er að keppa fyrsta leikinn á móti næstbesta gæjanum. Og þarna í annarri lotu lít ég á stigin. Ég sé níu-sjö. Vinn tvö stig í röð og sprett svo á bekkinn, bara geggjað. Ég var að vinna aðra lotu. En þarna staðan var í raun sjö-fimm þegar að ég leit á töfluna og hafði rangt fyrir mér. Þannig að ég hleyp á bekkinn þegar staðan er níu-fimm, ekki ellefu-sjö. Það var mjög vandræðalegt.“

Hver er þín erlenda borðtennisfyrirmynd?
„Ég myndi segja Dimitrij Ovtcharov, þýski. Út af því að hann – ég tengi rosa mikið við hann – hann byrjaði líka þegar hann var tólf ára eins og ég og er ekki þekktur fyrir að vera með perfekt spilastíl eða tækni en samt var hann bestur í heiminum.“

Eru einhverjir leikmenn eða þjálfarar sem hafa haft áhrif á þig?
„Já, ég myndi segja í raun allir sem hafa þjálfað mig hérna í Víkingi. En þú veist mest var það bara Nevena Tasic, því að hún er búin að þjálfa mig frá því að ég var byrjandi og er ennþá að þjálfa mig nú til dags.“ Hér má geta þess að Benedikt hefur sjálfur látið gott af sér leiða með þjálfun yngri leikmanna hjá Víkingi og í Leikni í Breiðholti undanfarin ár og verið hvetjandi þjálfari.

Að lokum spyrjum við: Af hverju er borðtennis besta íþróttin?
„Það eru náttúrulega margar ástæður af hverju borðtennis er best, en fyrir mig er það bara hlutirnir sem ég hef lært í lífinu. Bara discipline og að bæta mig í einhverju. Ég hef bara orðið betri manneskja og persóna í lífinu bara út af borðtennis.“

Lesendur eru jafnframt hvattir til að halda áfram að senda inn tilnefningar, til að styðja við góða umfjöllun árið 2026.

Aðrar fréttir