Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Borðtennismaður mánaðarins: Rubén Illera López

Borðtennissamband Íslands heldur áfram að fagna þeim frábæru iðkendum sem leggja stund á borðtennis og móta okkar kraftmikla samfélag. Rubén Illera López er annar borðtennismaður mánaðarins hjá BTÍ. Hann er spænskur og æfði borðtennis á heimaslóðum sínum á yngri árum en flutti til Íslands árið 2014, fyrst á Suð-Austurland.

Frá því að hann flutti á Selfoss 2022 hefur hann verið lykilmaður í uppbyggingu borðtennisfélaganna á svæðinu og hefur þjálfað fyrir hvorki fleiri né færri en sjö félög á Suðurlandi (sex félög vikulega eða oftar haustið 2025).

Rubén var burðarás í því að lið Selfoss komst upp í 2. deild karla í fyrsta sinn vorið 2025 og var kosinn þjálfari ársins í vinsældakosningu fyrir árshátíð BTÍ í maí 2025. Verkefnastjóri BTÍ hitti hann við þjálfun á byrjendum í húsnæði Borðtennisdeildar Selfoss í Stekkjaskóla.

Rubén byrjaði að æfa borðtennis þegar hann var 9 ára gamall í heimabæ sínum Valladolid á Spáni: „Ég var einmitt að koma heim úr sumarbúðum þar sem ég féll fyrir borðtennis. Það vildi svo til að skólinn minn byrjaði að bjóða upp á borðtennis einmitt þá“ segir hann og bætir við að hann hafi ákveðið að skrá sig strax.

Fyrsti þjálfarinn hans, Arturo, átti stóran þátt í að kveikja ástríðuna: „Hann var sá sem auglýsti þetta í skólanum. Arturo hafði mikil áhrif á mig, ekki endilega hvað tækni varðar því hann var ekki atvinnuþjálfari, en hann var frábær kennari og gerði æfingarnar mjög skemmtilegar. Við höfðum bara og ég held að þar hafi ástríðan fyrir borðtennis byrjað hjá mér.“

Þegar kemur að gúmmí-vali er Rubén Butterfly-maður. „Mér líkar mjög vel við Butterfly og ég nota venjulega hvað sem er hratt frá þeim. Núna er ég að nota Glacier,“ segir hann.

Hann segist ekki hafa neinar sérstakar hefðir fyrir leiki: „Mér finnst gott að mæta klukkutíma fyrr á svæðið til að hafa tíma til að hita upp og koma mér fyrir. En nei, ég nota ekki neinn sérstakan fatnað eða slíkt.“

Uppáhalds sigurinn er honum enn í fersku minni: „Ég átti ekki marga sigra svo þessi er mjög sérstakur. Ég var um 10-11 ára þegar ég vann mót í mínum flokki í heimabænum og fékk fallegan bláan bikar. Ég á hann enn heima hjá mér í gamla húsinu.“

Ferðalög eru stór hluti af borðtennisupplifuninni og Rubén á margar góðar minningar af slíku. „Ein uppáhaldsferðin var þegar ég var heppinn að fá að spila í því sem væri önnur deild á Spáni, sem er mjög hátt stig og yfir mínum flokki. Við spiluðum síðan á háskólamóti. Það var góð ferð sem ég á góðar minningar úr.“

Jan Ove Waldner er uppáhalds erlendi leikmaður Rubéns: „Ég horfi enn stundum á myndbönd af leikjunum hans í dag.”

En af hverju er borðtennis besta íþróttin? „Borðtennis er mjög opin öllum. Fólk af öllum gerðum, líkamlegu atgervi og öllum aldri getur tekið þátt. Eins og þú sérð hér eru bæði þeir yngstu og þeir sem eru komnir á eftirlaun. Ég held að þessi víðsýni íþróttarinnar sé það sem gerir hana besta.“

Borðtennissambandið minnir á að tilnefna má borðtennismenn mánaðarins hér og að sjá má viðtölin í stuttum myndböndum á tiktok (notendanafn: bordtennissambandislands).

Hvaða borðtennismaður þykir þér eiga að fá viðurkenningu? Fylltu út formið hér að neðan!

Aðrar fréttir