Borðtennismaður mánaðarins: Sól Kristínardóttir Mixa
Borðtennissamband Íslands heldur áfram að fagna flottum iðkendum sem leggja hart að sér í íþróttinni og byggja upp okkar fjölbreytta samfélag. Að þessu sinni er það Sól Kristínardóttir Mixa, sem hefur verið virk í íslensku borðtennissenunni frá unga aldri og varð Íslandsmeistari kvenna í mars 2024, 18 ára gömul, eftir miklar æfingar og stöðugar framfarir. Ástæða þess að Sól hlýtur nafnbótina í október 2025 er að í lok mánaðar verður hún fyrsta íslenska borðtenniskonan sem flytur erlendis gagngert til að bæta sig í íþróttinni, en hún flytur til Halmstad líkt og áður greinir.
Hún hóf æfingar hjá BH þegar hún var níu ára gömul:
„Ég byrjaði hjá BH fyrir um tíu árum síðan. Þjálfararnir mínir, Ingimar [Ingimarsson] og Tómas [Ingi Shelton], hafa verið með mér frá upphafi og þeir hafa alltaf stutt við mig.“
Sól notar Mantra gúmmí í bakhönd og DNA í forhönd, sem koma bæði frá framleiðandanum STIGA.
Hún er með ákveðna seremóníu fyrir leiki:
„Mér finnst mjög mikilvægt að undirbúa mig þannig að mér líði vel. Fyrir stórmót raka ég mig, set á mig brúnkukrem og er alltaf með armband sem systir mín gaf mér. Það lætur mig finna eins og hún sé alltaf með mér í leikjunum og styðji mig.“ Hér vísar Sól til tvíburasystur sinnar Alexíu Kristínardóttur Mixa sem æfði borðtennis lengi vel en þær systur hafa unnið ófáa Íslandsmeistaratitla í tvíliðaleik og flokkakeppni saman.
Það er ekki hlaupið að því fyrir Sól að velja uppáhalds sigur, en hún nefnir sérstaklega árangur í tvenndarleik á Íslandsmótinu í vor:
„Ég á mikið af góðum sigrum, en mér þykir sérstaklega vænt um sigrana með Magnúsi Gauta í tvenndarleik. Við höfum svo oft verið nálægt því að vinna og loksins tókst okkur það. Það var frábært augnablik.“ Þau Magnús Gauti urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik öðru sinni 2025 en síðast gerðist það árið 2020.
Sól á margar góðar minningar úr borðtennisferðum og rifjar eina skemmtilega upp frá kvennalandsliðsferð í febrúar 2025:
„Ég fór með stelpunum til Safír í Svíþjóð. Það voru nokkrir strákar sem vildu fá snappið okkar en við sögðum nei. Þeir urðu mjög leiðir og við héldum málið væri búið. En svo kom vinur þeirra með afmælisköku og rétti okkur hana. Þetta var mjög skrítin en fyndin uppákoma – allt í einu vorum við bara með þessa köku!“
Fyrirmyndin meðal borðtenniskvenna hefur lengi verið sú sama:
„Liu Shiwen er mín fyrirmynd. Hún er algjör geit í íþróttinni og einn besti leikmaður Kína. Svo eru auðvitað líka margir aðrir flottir leikmenn, eins og Darius og Lin Runju.“ Hún bætir við að þjálfararnir Tómas og Ingimar, sem hafi fylgt henni í áratug, hafi verið miklar fyrirmyndir, auk samherjans Magnúsar Gauta:
„Ég hef litið mjög mikið upp til þeirra þriggja.“
Að lokum spyrjum við, eins og alltaf af hverju borðtennis sé besta íþróttin:
„Borðtennis er svo fjölbreytt. Það er ótrúlega gaman að spila hana og mér finnst þetta vera skemmtilegasta íþróttin. Ég held að miklu fleiri ættu að prófa hana – þetta er bara ótrúlega skemmtilegt.“
Myndböndin birtast eitt af öðru á tiktok eins og venjulega þennan mánuðinn.
Hver finnst þér verðskulda viðurkenningu fyrir framlag sitt til borðtennissamfélagsins? Sendu inn þína tilnefningu hér!


