Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Borðtennismaður og kona ársins 2018

Magnús Gauti Úlfarsson BH og Stella Karen Kristjánsdóttir Víkingi hafa með yfirburðum verið kosin borðtennismaður og borðtenniskona ársins 2018. Voru þau kjörin í kosningu sem í fyrsta sinn var rafræn þar sem allir virkir leikmenn eldri en 16 ára á styrkleikalista BTÍ, stjórn og varastjórn BTÍ og landsliðsþjálfarar hafa atkvæðisrétt. Fór kosningaþátttakan fram úr öllum væntingum.

Magnús Gauti Úlfarsson BH:

Magnús Gauti varð Íslandsmeistari fullorðinna 2018 í karlaflokki 17 ára gamall en áður varð hann margfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkum. Á árinu 2018 náði hann í 16 manna úrslit á Norður Evrópumóti fullorðinna og varð hann í áttunda sæti í flokki 16-18 ára á Norður Evrópumótinu. Þrátt fyrir ungan aldur er hann burðarás í íslenska karlalandsliðinu og lék á árinu m.a. á Evrópumóti unglinga í Rúmeníu og Evrópumóti fullorðinna á Spáni. Magnús er góð fyrirmynd og frábær liðsfélagi.

Stella Karen Kristjánsdóttir:

Stella Karen varð á árinu 2018 Íslandsmeistari fullorðinna  í kvennaflokki aðeins 16 ára gömul og náði þeim markverða árangri að verða bæði Íslandsmeistari í 1. flokki og meistaraflokki á sama ári. Áður hafði hún orðið margfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkum. Hefur hún frá því að hún varð Íslandsmeistari haldið áfram að taka stórstígum framförum og tekið þátt í sínum fyrstu landsliðsverkefnum í fullorðinsflokki. Stella Karen er fylgin sér, harðdugleg og glæsileg fyrirmynd.

Óskar stjórn BTÍ þeim Magnúsi Gauta Úlfarssyni og Stellu Karen Kristjánsdóttur til hamingju með kosninguna.

 

Aðrar fréttir