BR sigrar í 3. deild
Lið BR frá Reykjanesbæ sigrar í 3. deild vorið 2022, á fyrsta keppnisári félagsins í deildakeppni BTÍ og í fyrsta skipti sem keppt er í 3. deild. Það var ljóst eftir að leikið var í undanúrslitum deildarinnar í húsnæði BR í Reykjanesbæ laugardaginn 7. maí.
Í undanúrslitum mættust annars vegar BR-A, sem varð í 2. sæti í suðvesturriðli, og Garpur-A, sem sigraði í suðurriðli. BR-A sigraði örugglega 3-0 í leiknum, og tapaði ekki lotu í viðureigninni.
Í hinum undanúrslitaleiknum áttu að mætast BR-B, sem sigraði í suðvesturriðli og Selfoss-A, sem varð í 2. sæti í suðurriðli. Selfoss gaf leikinn, svo BR-B fer beint í úrslitaleikinn.
Það verða því BR-A og BR-B sem mætast í úrslitum í 3. deild karla í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði sunnudaginn 8. maí. Leikurinn hefst kl. 10.
Á forsíðunni má sjá mynd af liðunum sem áttust við í undanúrslitunum í Reykjanesbæ, með Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur, formanni BTÍ. Mynd frá Auði tinnu.