Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Davíð og Aldís Íslandsmeistarar í tvenndarleik

Davíð Jónsson og Aldís Rún Lárusdóttir, KR, urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik á fyrri degi Íslandsmótsins, sem fram fer í TBR-húsinu helgina 3.-4. mars. Þetta er í þriðja skipti sem þau verða Íslandsmeistarar í tvenndarleik.

Í úrslitum unnu Davíð og Aldís Gunnar Snorra Ragnarsson og Ársól Clöru Arnardóttur úr KR 3-0 (11-5, 11-6, 11-9) og töpuðu ekki lotu í tvenndarkeppninni. Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, BH/Ásta Urbancic, KR og Magnús Gauti Úlfarsson/Sól Kristínardóttir Mixa, BH höfnuðu í 3.-4. sæti.

Sunnudaginn 4. mars verður leikið í undanúrslitum og úrslitum í öðrum flokkum en tvenndarkeppni. Ljóst er að nýr Íslandsmeistari verður krýndur í meistaraflokki kvenna, en enginn leikmannanna í flokknum hafa unnið titilinn. Þær sem berjast um sigurinn eru Aldís Rún Lárusdóttir, KR og Stella Karen Kristjánsdóttir, Víkingi, sem mætast í öðrum undanúrslitunum. Í hinum undanúrslitunum leika Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR og Berglind Ósk Sigurjónsdóttir, Víkingi.

Í meistaraflokki karla leikur Íslandsmeistarinn 2017, Magnús K. Magnússon, Víkingi, við Magnús Gauta Úlfarsson, BH í undanúrslitum. Í hinum undanúrslitunum mætast Davíð Jónsson, KR og Ingólfur Sveinn Ingólfsson, KR.

Í tvíliðaleik kvenna mæta Íslandsmeistararnir 2017, Ásta Urbancic, KR og Bergrún Linda Björgvinsdóttir, Dímon þeim Stellu Karen Kristjánsdóttur og Þórunni Ástu Árnadóttur, Víkingi. Í hinum undanúrslitunum leika Aldís Rún Lárusdóttir/Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR við Agnesi Brynjarsdóttur/Berglindi Ósk Sigurjónsdóttur, Víkingi.

Í tvíliðaleik karla leika annars vegar Arnór Gauti Helgason/Ársæll Aðalsteinsson, Víkingi og Birgir Ívarsson/Magnús Gauti Úlfarsson, BH. Hins vegar Davíð Jónsson/Skúli Gunnarsson, KR og Ingi Darvis Rodriquez/Sindri Þór Sigurðsson, Víkingi. Af þeim hefur aðeins Davíð Jónsson unnið þennan titil.

Í öðrum flokkum eiga Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, KR (1. flokkur kvenna) og Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir, KR (2. flokkur kvenna) möguleika á að verja titilinn sinn frá í fyrra en í karlaflokkunum eru Íslandsmeistararnir frá 2017 (Tómas Ingi Shelton, BH og Karl A. Claesson, KR) komnir upp um flokk og geta því ekki varið titilinn.

Úrslit úr leikjum dagsins má sjá á vef Tournament Software, http://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=E9E2DC79-9A5B-40EE-BCF2-146E85035E7E

 

ÁMU

Aðrar fréttir