Deildarmeistarar í Keldudeildinni krýndir 17. apríl
Keppni í Keldudeildinni lýkur laugardaginn 17. apríl en þá verða tvær síðustu umferðirnar leiknar í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði.
Í Keldudeild karla berjast BH-A og Víkingur-A um sigur en liðin mætast einmitt 17. apríl. BH-A hefur 16 stig en Víkingur-A 14 stig fyrir tvær síðustu umferðirnar. BH-A á auk þess eftir að leika við HK-A en Víkingur-A leikur við KR-A. Deildarmeistarar síðasta árs, KR-A, eru í 3. sæti með 10 stig og HK-A í 4. sæti með 6 stig.
Víkingur-B og HK-B eru í neðstu sætunum og þau lið mætast 17. apríl. Með sigri tryggir Víkingur-B veru sína í deildinni á næsta keppnistímabili þar sem liðið hefur 2 stig en HK-B ekkert stig fyrir lokaumferðirnar. Víkingur-B á enn möguleika á að ná 4. sætinu og þar með sæti í úrslitakeppninni.
Víkingskonur hafa forystu í Keldudeild kvenna en liðið er með 14 stig. KR-A er í 2. sæti með 12 stig og á liðið enn möguleika á deildarmeistaratitlinum en til þess þarf liðið að sigra Víking 3-0 í leik liðanna 17. apríl. Annars verja Víkingskonur titilinn sem þær unnu í fyrra.
Keppni í suðurriðli 2. deildar lýkur sunnudaginn 18. apríl. Þá ræðst hvaða tvö lið komast í úrslitakeppni með tveimur efstu liðunum í norðurriðlinum, Samherjum-A og Akri-A.
Í A-riðli suðurriðils berjast KR-B og HK-C um sigur. KR-B hefur 16 stig en HK-C 14 stig en liðin mætast einmitt 18. apríl.
Í B-riðli suðurriðils stendur baráttan á milli BH-B og Víkings-C. Bæði lið hafa 12 stig en BH-B á tvo leiki eftir en Víkingur-C einn leik, sem er einmitt við BH-B.
Dregið verður um það hvort liðið úr suðurriðlunum leikur við Samherja-A og hvort við Akur-A í úrslitakeppninni.
Verið er að vinna að því að finna nýja dagsetningu fyrir úrslitakeppni 2. deildar.