Eiríkur og Matthías unnu leik í tvíliðaleik á EM unglinga
Einn sigur vannst í einstaklingsgreinum á EM unglinga þann 18. júlí. Hann kom í tvíliðaleik drengja, þar sem Eiríkur Logi Gunnarsson og Matthías Þór Sandholt lögðu blandað par frá Lettlandi og Wales 3-1. Þeir léku næst við par frá Tyrklandi í 64 para úrslitum og töpuðu þeim leik 0-3 og voru þar með úr leik.
Aðrir leikir íslensku keppendanna í dag töpuðust 0-3.
Alexander Ivanov og Benedikt Aron Jóhannsson kepptu í tvílðaleik drengja gegn pari frá Kýpur og töpuðu í þremur lotum sem allar enduðu 8-11.
Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir og Helena Árnadóttir léku gegn pari frá Tékklandi og töpuðu í þremur jöfnum lotum.
Kristján Ágúst Ármann og Lúkas André Ólason mættu líka pari frá Tyrklandi í tvíliðaleik sveina.
Keppni í riðlum í einliðaleik lauk í dag og áttu íslensku keppendurnir eftir einn leik hver í sínum riðli.
Sól Kristínardóttir Mixa tapaði fyrir stúlku frá Azerbaidjan í stúlknaflokki.
Í drengjaflokki tapaði Alexander Ivanov fyrir leikmanni frá Rúmeníu, Benedikt Aron Jóhannsson fyrir keppanda frá Ungverjalandi, Eiríkur Logi Gunnarsson fyrir dreng frá Noregi og Matthías Þór Sandholt fyrir leikmanni frá Tyrklandi.
Í meyjaflokki tapaði Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir fyrir leikmanni frá Úkraínu og Helena Árnadóttir fyrir keppanda frá Azerbaijan.
Sveinarnir töpuðu fyrir leikmönnum frá Litháen (Benedikt Jiyao Davíðsson og Kristján Ágúst Ármann) og Serbíu (Lúkas André Ólason).
Íslensku keppendurnir hafa þar með lokið keppni á mótinu.
Myndir frá Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur og hér fyrir neðan má sjá íslenska hópinn á mótinu.