Ellert fékk gull og Magnús Jóhann og Pétur á palli í Gautaborg
Íslensku leikmennirnir hófu keppni á Klubbresornars klubbresa mótinu í Gautaborg í dag, 7. júní. Þau tóku hvert um sig þátt í tveimur flokkum en keppt er í mörgum styrkleikaflokkum á mótinu. Flestir íslensku leikmennirnir unnu a.m.k. einn leik á mótinu í dag.
Ellert Kristján Georgsson sigraði í flokki undir 1900 stigum, en hann lagði Pétur Gunnarsson 3-1 í úrslitaleiknum. Ellert keppti líka í undir 2200 stiga flokknum og vann einn leik í riðlinum.
Pétur fékk því silfur í flokki undir 1900 stigum og hann var aftur á verðlaunapallií undir 2200 stiga flokknum, þar sem hann fékk brons.
Magnús Jóhann Hjartarson varð í 2. sæti í flokki undir 2600 stigum en hann tapaði 9-11 í oddalotu í úrslitaleiknum. Magnús varð svo í 5.-8. sæti í undir 2200 stiga flokknum.
Óskar Agnarsson varð í 5.-8. sæti í flokki undir 1900 stigum og hann vann einn leik í riðlinum í undir 2200 stiga flokknum.
Benedikt Aron Jóhannsson vann sinn riðil og hafnaði í 9.-16. sæti í flokki undir 1200 stig. Hann vann einn leik af þremur í riðlinum í undir 1400 stiga flokki.
Gestur Gunnarsson vann tvo leiki af þremur í riðlinum í undir 1900 stiga flokknum, en sat eftir í riðlinum þar sem þrír leikmenn höfðu jafnmarga vinninga. Gestur vann einn leik í riðlinum í undir 2200 stiga flokknum.
Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir vann einn leik af þremur í riðlinum í undir 1400 stig flokki og tapaði öllum leikjunum í sínum riðli í undir 1200 stiga flokknum.
Aldís Rún Lárusdóttir lék í undir 1400 og undir 1700 stiga flokkum og tapaði öllum leikjum sínum í riðlunum.
Helena Árnadóttir keppti í undir 900 og undir 1200 stiga flokkum og tapaði öllum leikjum sínum í riðlunum.
Matthias Sandholt keppti ekki á mótinu í dag.
Forsíðumyndin er af Ellert og Óskari í tvíliðaleik á Íslandsmótinu 2024, tekin af fésbókarsíðu BTÍ.