Ellert komst í 2. umferð í einliðaleik á EM unglinga
Ellert Kristján Georgsson komst í 2. umferð í einliðaleik á EM unglinga eftir öruggan 4-0 sigur á Lettanum Aleksandrs Pahomovs. Ellert mætir Azeranum Khinhang Yu laugardaginn 13. júlí.
Tvær lotur unnust í einliðaleik hjá öðrum leikmönnum Íslands. Agnes lék við Emilie Piquard frá Lúxemborg og varð að játa sig sigraða 1-4. Gestur tapaði 0-4 gegn Christos Savva frá Kýpur, og Ingi Darvis tapaði 1-4 fyrir Steven Georges frá Lúxemborg. Sýnt var beint frá leikjum Agnesar, Gests og Inga í einliðaleik í dag á vef ETTU.
Drengirnir léku einnig í tvíliðaleik í dag. Ellert og Ingi Darvis mættu Adam Stalzer frá Tékklandi og Dalibor Diko frá Slóvakíu og töpuðu þeir 0-3. Gestur lét með Vakaris Mecionis frá Litháen. Þeir mættu Fatih Karabaxhak og Kreshnik Mahmuti frá Kovoso og töpuðu 0-3, þar sem miðlotan fór í framlengingu.
Laugardaginn 13. júní leikur Ellert í 2. umferð í einliðaleik, Harriet keppir í einliðaleik við Wiktoriu Wrobel frá Póllandi. Þá keppa Agnes og Harriet í tvíliðaleik við sænskt par, þær Leah Tveit Muskantor og Nomin Baasan.
Forsíðumynd af fésbókarsíðu BTÍ.