Erfiðir leikir á fyrsta degi hjá strákunum á EM unglinga
Íslensku strákarnir hófu keppni á EM unglinga með leikjum í liðakeppni. Hvort lið lék tvo leiki og töpuðust þeir 0-3 og allir einstakir leikir 0-3. Nokkrar lotur töpuðust með minnsta mun.
Sveinaliðið (kadett, 15 ára og yngri) spilar í G-riðli og keppti við Montenegro og Lúxemborg. Síðasti leikurinn í riðlinum er við Möltu kl. 11.30 þann 15. júlí, en eins og Ísland hefur Malta tapað báðum leikjum sínum 0-3.
Drengjaliðið (junior, 16-18 ára) leikur í I-riðli og mætti Austurríki og Finnlandi. Þeir mæta svo Kosovo þann 15. júlí kl. 14.00 en Kosovo hefur líka tapað báðum leikjum sínum 0-3.
Með sigri í leikjum sínum þann 15. júlí tryggja íslensku liðin sér 3. sætið í riðlinum, leika við sterkari andstæðinga í framhaldinu og eiga möguleika á sæti ofar í lokaröð liðanna á mótinu. Með tapi verða þau í 4. sæti riðilsins og spila við önnur lið sem höfnuðu í 4. sæti síns riðils.
Hér má sjá úrslit úr leikjunum á mótinu: https://www.ettu.org/en/events/european-youth-championships/draws–amp–results/
Forsíðumynd af hópnum tekin af fésbókarsíðu BTÍ.