Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Europe Top-16 2019 næstu helgi!

Europe Top-16 fer fram í 48. sinn í Sviss um helgina (2. og 3. febrúar).

Mótið er boðsmót þar sem 14 bestu körlum og konum í Evrópu er boðið ásamt ríkjandi Evrópumeistara og fulltrúa heimalandsins. Allar skærustu stjörnur Evrópu mætast því um helgina í þessari veislu.

Karlamegin spila: 01) Timo Boll, 02) Dimitrij Ovtcharov, 03) Mattias Falck, 04) Liam Pitchford, 05) Vladimir Samsonov, 06) Jonathan Groth, 07) Simon Gauzy, 08) Kristian Karlsson , 09) Marcos Freitas, 10) Emmanuel Lebesson, 11) Daniel Habesohn, 12) Tiago Apolonia, 13) Kou Lei, 14) Ovidiu Ionescu, 15) Gionis Panagiotis og 16) Lionel Weber.

Kvennamegin spila: 01) Sofia Polcanova, 02) Bernadette Szocs, 03) Elizabeta Samara, 04) Li Jie, 05) Petrissa Solja, 06) Matilda Ekholm, 07) Li Qian, 08) Georgina Pota, 09) Britt Eerland, 10) Polina Mikhailova, 11) Ni Xia Lian, 12) Nina Mittelham, 13) Natalia Partyka, 14) Hana Matelova, 15) Barbora Balazova og 16) Rachel Moret.

Við hjá borðtennis.is fengum nokkra sérfræðinga til að sjá um helgarspána.

 

Sindri Þór Sigurðsson leikmaður Víkings.

Hjá körlunum er Timo Boll fyrsti maður á blað. Á eftir honum kemur Liam Pitchford og Kristian Karlsson tekur bronsið.

Kvenna megin er þetta Bernadette Szocs í fyrsta sæti, Petrissa Solja í öðru og Matilda Ekholm fær brons. Held að þetta sé solid. Ég hleyp svo hlæjandi alla leið í bankann á mánudaginn eftir þessa spá.

 

Einar Geirsson fyrverandi unglingalandsliðsþjálfari.

Evrópsku leikmennirnir eru svo óútreiknanlegir, vinna og tapa á víxl fyrir hvorum öðrum. Dimitrij Ovtcharov vinnur þetta karla megin. Simon Gauzy verður annar og Timo Boll þriðji. Dima búinn að vera í lægð en ég held að hann stigi upp núna. Hann toppar í vor og kemst í 8 manna úrslit á HM í Búdapest.

Hjá stelpunum tek ég séns á pólska varnarspilaranum Li Qian, hún er auðvitað núverandi Evrópumeistari. Elizabeta Samara verður önnur og Bernadette Szocs þriðja.

 

Pétur Marteinn Urbancic Tómasson leikmaður BH.

Karlar: Báðir Þjóðverjarnir sem taka þátt hafa unnið mótið margoft, Timo Boll hefur unnið sex sinnum og Dimitrij Ovtcharov fjórum sinnum. Þrátt fyrir það hefur Ovcharov ekki átt sitt besta tímabil og náði sér t.a.m. aldrei á strik á HM í Halmstad í fyrra. Ég ætla því ekki að setja Ovcharov í topp 3 en ég held að Timo, sem vann mótið í fyrra, muni komast þangað. Simon Gauzy er enn að sleikja sárin eftir að hafa næstum tapað tveimur lotum fyrir undirrituðum þann 8. júní árið 2007. Hann kemst því ekki á listann í þetta skiptið. Liam Pitchford á góða daga og slæma. Ég held að hann muni detta í sama gír og á opna búlgarska mótinu síðasta sumar, þar sem hann sigraði Ma Long, og komast örugglega í topp 3. Það er freistandi að setja Vladimir Samsonov sem síðasta mann í topp 3, en hann hefur unnið mótið fjórum sinnum. Engu að síður er aldurinn farinn að segja til sín og ég ætla að giska á að Marcos Freitas komi sterkur inn. Freitas sigraði mótið árið 2014 og lenti í 2. sæti árið eftir. Freitas er e.t.v. ekki sá sterkasti á listanum en hann á það til að koma á óvart. Að lokum vona ég að Daniel Habesohn komist í topp 3, þó að ég veðji ekki á það.

Konur: Fyrsta gisk kvenna megin er Li Qian. Pólsk-kínverski varnarspilarinn er ríkjandi Evrópumeistari og þrátt fyrir að hafa síðast fengið medalíu á topp 16 mótinu árið 2010 hef ég á tilfinningunni að þetta sé hennar mót. Þær rúmensku eru báðar gífurlega sterkar. Bernadette Szocs og Elizabeta Samara voru báðar í verðlaunasæti í fyrra, þar sem Szocs tók gullið. Ég held að Samara, sem hefur þrisvar orðið Evrópumeistari, komist í topp 3 í þetta skiptið. Szocs, sem er líklega hvað þekktust fyrir hátíðnifagn sem minnir á hundaflautu, mun sitja eftir með sárt ennið þetta árið. Það væri gaman að setja Íslandsvininn Ninu Mittelham á listann en ég held að landi hennar Petrissa Solja sé líklegri í þeta skiptið. Það verður ekki rökstutt frekar, heldur er um svokallað „gut feeling“ að ræða.

Hægt verður að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu á vef Loaola1.tv um helgina og einnig Eurosport 1 og 2, sjá útsendingartíma á Eurosport hér. Á vefsíðu ETTU er svo að finna umfjöllun um mótið sjá hér auk þess sem vert er að benda á heita umræðu sem vafalaust mun skapast á vef tabletennisdaily sem er að finna hér.

Aðrar fréttir