Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Eyjafjörðurinn bíður eftir þér  –  Íslandsmót unglinga í borðtennis 14. og 15. apríl 2018

Íslandsmót unglinga í borðtennis verður að þessu sinni haldið í Íþróttamiðstöðinni við Hrafnagil í Eyjafjarðarsveit dagana 14. og 15. apríl.  Það eru Íþróttafélagið Akur á Akureyri, Ungmennafélagið Æskan á Svalbarðsströnd og Ungmennafélagið Samherjar í Eyjafjarðarsveit sem standa saman að mótinu þetta árið.

Um leið og félögin bjóða alla velkomna í Eyjafjörðinn er ástæða til þess að kynna ákveðna þætti í mótshaldinu þótt formleg auglýsing og áætluð tímasetning keppni hvers flokks fyrir sig liggi ekki fyrir.

Boðið verður upp á gistingu í skólastofum í Hrafnagilsskóla og jafnframt verður boðið upp á morgunmat, hádegismat og kvöldmat á laugardeginum og morgunmat og hádegismat á sunnudeginum.

Fyrir þetta þarf að greiða kr. 8.000 þegar mætt er á staðinn.  Því miður er ekki boðið upp á posa og enginn hraðbanki er á staðnum.  Sama verð er fyrir alla, sama á hvaða aldri þeir eru, og foreldrar og aðrir fylgifiskar keppenda eru meira en velkomnir.   Nauðsynlegt er að taka dýnur og svefnpoka/sængur með sér.

Keppnishaldarar gera ráð fyrir því að það fylgi fullorðnir einstaklingar öllum keppnishópum sem taka ábyrgð á sér og sínum.  Sólarhringsvakt verður í íþróttahúsinu/skólanum yfir keppnishelgina en byrjað verður að taka á móti gestum klukkan 17:00 föstudaginn 13. apríl.

Ef þeir sem gista ekki á staðnum vilja kaupa fæðið sérstaklega kostar það kr. 6.000.   Fæði og gistingu þarf að panta fyrirfram, helst ekki síðar en þriðjudaginn 10. apríl til þess að hægt verði að skipuleggja allt sem best.

Á laugardagskvöldinu munu keppnishaldarar  hafa „sundlaugarpartí“ milli kl. 20 og 22 gestum  að kostnaðarlausu.  Vonast þeir til að geta boðið upp á hljómlist í sæmilegum hljómgæðum en sá þáttur er í vinnslu ennþá og ekki alveg kominn á hreint.

Sundlaug staðarins er annars opin frá kl. 10 að morgni til kl. 17 seinnipartinn og er aðgangseyrir fyrir 17 ára og yngri kr. 200.

Það má auðvitað nefna það hér að skráningargjöld á mótið verða þau sömu og í fyrra skv. ákvörðun stjórnar BTÍ en það eru kr.  2.000 fyrir einliðaleik og kr. 2000 fyrir parið í tvíliða/tvenndarleik.   Bankaupplýsingar fyrir keppnisgjöld mun fylgja síðari auglýsingu mótsins.

Skráningu á gistingu eða fyrirspurnir varðandi ofangreint er fínt að senda á [email protected] (821-3240) eða [email protected] (861-9414) en það eru þeir feðgar og borðtennisþjálfarar hjá Umf. Samherjar, Sigurður Eiríksson og Ólafur Ingi Sigurðsson sem eiga þau netföng.

Aðrar fréttir